Viðskipti innlent

Þrjú tilboð bárust í Morgunblaðið

Breki Logason skrifar
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins

Þrjú tilboð bárust í Árvakur, Útgáfufélags Morgunblaðsins, en frestur til þess að skila inn tilboðum rann út klukkan 14:00 í dag. Óskar Magnússon fer fyrir einum af hópunum en hann skilaði inn tilboði á síðustu stundu. Hann segir tilboðið sanngjarnt og raunhæft.

„Þetta er nú ekkert leynifélag og það verður ekkert leyndarmál hverjir standa að þessu tilboði með mér. Ég hef hinsvegar ákveðið að segja ekki frá því nema tilboðinu verði tekið. Eignarhald á tilboði á ekki að skipta neinu máli en eignarhald á fjölmiðli kann að skipta máli," segir Óskar aðspurður hverjir standi að tilboðinu.

Hann segir að fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem er með Árvakur í söluferli eigi að taka afstöðu til tilboðanna fyrir klukkan 17:00 á mánudag.

„Ég held að þetta sé sanngjarnt og eðlilegt tilboð, sem sé raunhæft og aðgengilegt fyrir seljandanna," segir Óskar sem vill ekki nefna neinar tölur í því sambandi.

Fjórir hópar fengu að gera skuldbindandi tilboð í Árvakur.

Samkvæmt heimildum Vísis skiluðu Vilhjálmur Bjarnason og félagar í Almenningshlutafélagi um Morgunblaðið einnig inn tilboði. Það gerði ástralski fjárfestirinn Steve Cosser líka.

Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson sem fara fyrir fjórða hópnum gerðu ekki tilboð í Morgunblaðið eins og haldið var fram í þessari frétt fyrr í dag. Leiðréttist það hér með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×