Formúla 1

Vettel yfirgefur Ferrari eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Vettel hefur ekki tekist að verða heimsmeistari með Ferrari.
Sebastian Vettel hefur ekki tekist að verða heimsmeistari með Ferrari. vísir/getty

Þýski ökuþórinn Sebastian Vettel yfirgefur herbúðir Ferrari þegar þessu tímabili í Formúlu 1 lýkur. Viðræður milli Vettels og Ferrari báru engan árangur og því var ákveðið að fara í sitt hvora áttina.

Vettel samdi við Ferrari fyrir tímabilið 2015 og tók sæti Fernandos Alonso hjá ítalska liðinu. Hann ók áður fyrir Red Bull og varð þar heimsmeistari ökuþóra fjögur ár í röð (2010-13).

Þjóðverjanum hefur ekki tekist að vinna heimsmeistaratitil með Ferrari og hefur fallið í skuggann á hinum unga Charles Leclerc. Talið er að Ferrari hafi boðið hinum 32 ára Vettel talsvert lægri laun en hann var með og styttri samning en hann vildi fá.

Á síðasta tímabili endaði Vettel í 5. sæti í keppni ökuþóra á meðan Leclerc varð fjórði. Ferrari varð í 2. sæti á eftir Mercedes í keppni bílasmiða.

Meðal þeirra ökuþóra sem hafa verið orðaðir við stöðu Vettels hjá Ferrari eru Carlos Sainz hjá McLaren og Daniel Ricciardo hjá Renault.

Óvíst er hvað tekur við hjá Vettel. Hann hefur m.a. verið orðaður við McLaren og Renault. Ólíklegt þykir að hann fari til Mercedes eða Red Bull.

Ekki liggur fyrir hvenær tímabilið 2020 í Formúlu 1 hefst vegna kórónuveirufaraldursins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.