Innlent

Dóttirin njóti sama réttar og sonurinn

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Þórir Frantzson
Jón Þórir Frantzson
„Ég vil að dóttir mín njóti sama réttar og sonur minn,“ segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins. Fyrirtækið, ásamt IKEA og ISS, er það fyrsta sem hlotið hefur Jafnlaunavottun VR.

Aukinheldur segir Jón Þórir mikilvægt að tryggja að starfsfólk þurfi ekki að velkjast í vafa um hvort fyrirtæki mismuni á einhvern hátt eftir kyni eða þjóðerni. Vottunin nái til hvers konar mismununar. Núna hafi Íslenska gámafélagið undirgengist að fá utanaðkomandi aðila til þess að sannreyna að jafnlaunastefnunni sé fylgt í raun. „Maður sér víða að erfiðlega hefur gengið að fylgja markmiðum um að útrýma kynbundnum launamun, jafnvel hjá hinu opinbera,“ bætir hann við.

Núna fylgja fyrirtækin þrjú jafnlaunastaðlinum ÍST85, sem gefinn var út í desember, en sérfræðingar BSI, British Standards Institution á Íslandi, fylgjast svo með framvindunni.

„Þeir koma og kanna hvort við erum ekki örugglega að borga sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu þannig að allir sitji við sama borð,“ segir Jón Þórir, en bætir um leið við að vitanlega sé samt ekki verið að loka á möguleika fólks til að vera duglegt í vinnunni og fá sérstaka umbun fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×