Viðskipti innlent

Saga Capital telur brot á reglum ekki skipta máli

Breki Logason skrifar
Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir

Í máli fjárfestingarbankans Saga Capital gegn Dögg Pálsdóttur sem Vísir sagði frá í vikunni er ágreiningur um hvort Dögg og fyrirtæki hennar Insolidum hafi vitað hver ætti stofnfjárbréf í Spron sem fest voru kaup á.

Dögg hefur leitt að því líkur að bréfin sem hún keypti og voru fjármögnuð af stórum hluta af Saga Capital hafi verið í eigu Gunnars Þór Gíslasonar stjórnarmanns í Spron og eins af stærstu eigendum Saga Capital.

Gunnar sagði hinsvegar við Vísi í vikunni að hann hefði selt fjárfestingarbankanum bréf sín, en vissi ekki hvað hefði orðið um þau eftir það.

Í verklagsreglum Saga Capital kemur fram að bankanum sé skylt að upplýsa kaupendur ef um sölu úr eigin safni sé að ræða. Að mati Daggar var það hinsvegar ekki gert þar sem á kaupnótu vegna viðskiptanna hafi vantað stimpil um að bréfin kæmu úr eignarsafni Saga Capital.

Lögmaður fjárfestingarbankans sagði fyrir héraðsdómi í vikunni að um mistök hefði verið að ræða því auðvitað hefði nótan átt að vera stimpluð.

Við aðalmeðferðina kom einnig fram að Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri bankans hafi tilkynnt Páli Ágústi, syni Daggar sem stóð að kaupunum með henni, að bréfin væru úr eignasafni Saga Capital.

Þessu neitar Páll Ágúst og halda þau Dögg því fram að þau hafi ekki vitað hvaðan bréfin kæmu fyrr en seint og síðar meir. Ekki fyrr en í nóvember eftir að svar barst frá lögmanni Saga Capital þegar eftir því hafði verið leitað. Kaupin fóru hinsvegar fram í júlí.

Í verklagsreglum bankans kemur fram að séu þær brotnar skuli öll kaup ganga til baka, og byggist vörn þeirra mæðgina að stórum hluta á því.

Það er bakvinnslufyrirtæki Saga Capital, Arion, sem gefur út umrædda nótu og samkvæmt upplýsingum Vísis var fyrirtækið með tilkynningu frá bankanum um að bréfin væru frá þeim en áletrunin datt út í nokkurn tíma sem síðar hafi verið leiðrétt.

Sömu mistök voru gerð hjá öðrum sem keyptu bréf í Spron í gegnum Saga Capital.

Í máli lögmanns Saga Capital mátti einnig skilja að þessi mistök séu ekki stórvægileg í huga bankans. Það sé skýrt í lögunum að þó menn hafi ekki uppfyllt verklagsreglur sínar með fullnægjandi hætti þá muni það ekki leiða til þess að viðskiptin verði ógild nema hægt sé að sýna fram á að af þessum brotum á verklagsreglunum hafi hlotist tjón eða skaði.

Bankinn telur að Dögg og syni hennar hafi ekki tekist að sýna fram á það þar sem verðlækkun á hlutabréfum Spron verði ekki rakin til þess að kaupnótan hafi ekki verið stimpluð með fullnægjandi hætti.

Niðurstöðu í máli Saga Capital gegn Insolidum er að vænta innan þriggja vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×