Körfubolti

Ingi Þór um tímasetninguna: Er í sömu stöðu og Heimir Guðjóns

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ingi Þór er í leit að nýju liði til að þjálfa.
Ingi Þór er í leit að nýju liði til að þjálfa. vísir/daníel

Körfuboltaþjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson er nú án félags eftir að hafa verið rekinn sem þjálfari Íslandsmeistara KR en staðfest var um uppsögnina fyrr í dag.

Tímasetningin ekki vænleg fyrir Inga í ljósi þess að flest lið Dominos deildarinnar hafa undanfarnar vikur verið að ráða til sín þjálfara fyrir næsta tímabil.

Ingi segir það vissulega flækja málin og upplifir sig í svipaðri stöðu og knattspyrnuþjálfarinn Heimir Guðjónsson þegar Heimir var látinn fara frá FH haustið 2017. Ingi kveðst engu að síður vera búinn að fá nokkur símtöl en Þór Akureyri er til að mynda í leit að þjálfara auk Snæfells þar sem Ingi þjálfaði lengi við góðan orðstír.

„Góður vinur minn, Heimir Guðjónsson, KR-ingur, lenti í svipaðri stöðu. Honum var sagt upp á svipuðum tímapunkti þegar flest lið voru búin að fylla sínar stöður. Ég er búinn að fá nokkur áhugaverð símtöl en ég ætla ekkert að flýta mér í þessu,“ segir Ingi.

Heimir réði sig til Færeyja og þjálfaði þar í tvö ár áður en hann kom aftur til Íslands síðasta haust og þjálfar nú Val í Pepsi Max deildinni. Ingi telur ólíklegt að hann feti í fótspor félaga síns í Færeyjum.

„Ég er ekki viss um að körfuboltinn í Færeyjum sé stór en það er örugglega gott að búa í Færeyjum. Heimir var allavega ánægður þar. Ég skoða það sem kemur inn á borð til mín en ég er ekki að horfa neitt erlendis,“ segir Ingi sem leggur mikla áherslu á að skilja við KR í góðu þó hann sé vitanlega ekki sáttur við uppsögnina.

„Ég ætla að skilja við KR í góðu. Ég ætla að gera það að verkum að ég geti farið aftur í KR þegar þess gerist þörf,“ segir Ingi.

Klippa: Ingi Þór í sömu stöðu og Heimir Guðjóns

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.