Viðskipti innlent

1700 farþegar flugu með Icelandair í apríl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur Icelandair.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur Icelandair. Vísir/vilhelm

Aðeins 1700 farþegar flugu með Icelandair í aprílmánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem segir að þessi fjöldi farþega endurspegli þá stöðu sem nú ríkir í alþjóðaflugi vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra ferðatakmarkana sem eru í gildi núna um allan heim.

Í apríl í fyrra flugu 318 þúsund farþegar með Icelandair og er samdrátturinn því 99% á milli ára. Heildarframboð minnkaði einnig um 97% á milli ára og þá var sætanýting félagsins 13% borið við 83,7% í apríl 2019.

Þá fækkaði farþegum Air Iceland Connect einnig mikið á milli ára eða um 91% en fleiri flugu með Air Iceland Connect heldur en Icelandair í apríl, eða alls 1970 farþegar:

„Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var rúmlega 1.970 í aprílmánuði og fækkaði um 91% á milli ára. Framboð minnkaði um 87% og var sætanýting 46,2% samanborið við 69% í apríl 2019.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 75% í marsmánuði. Fraktflutningar drógust minna saman, eða um 37%.

Á helstu flutningaleiðum hefur allt framboð verið að fullu nýtt og samdrætti í farþegaflugi verið mætt með auka ferðum af fraktvélum félagsins til Evrópu og Bandaríkjanna. Þannig hefur félagið náð að tryggja útflutning og verðmæti sjávarafurða og annarra útflutningsvara og flutt inn nauðsynjavörur til Íslands.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur Icelandair Group einnig tekið að sér ýmis sérverkefni. Þar má nefna flutning á vörum frá Kína fyrir íslenska heilbrigðiskerfið í samstarfi DB Schenker og og nú er flogið nær daglega með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Þýskalands fyrir aðila í heilbrigðisþjónustu í Evrópu.

Þá eru auk þess nokkur samskonar flug frá Kína til Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi. Þessi verkefni munu koma fram í flutningstölum fyrir maímánuð,“ segir í tilkynningu Icelandair.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×