Viðskipti innlent

Brýnt fyrir heimili og fyrirtæki að hemja verðbólgu

MYND/GVA

Verðbólga hér á landi er enn töluvert meiri en það markmið sem Seðlabankanum er sett og ekki verður að sinni fullyrt að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi breyst að marki frá því í nóvember. Brýnt sé fyrir afkomu og efnahag heimila og fyrirtækja að hemja verðbólgu og ná tökum á verðbólguvæntingum. Þetta sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þar sem hann kynnti rökstuðning bankastjórnarinnar fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75 prósentum.

Fram kemur í rökstuðningnum að verðbólguspá sem birtist í Peningamálum í nóvember hafi falið í sér óbreytta stýrivexti fram yfir mitt ár 2008. „Þrátt fyrir að töluverðar breytingar virðist fram undan í þjóðarbúskapnum telur bankastjórn enn ekki efni til þess að hverfa frá nóvemberspánni. Verðbólga er enn töluvert meiri en það markmið sem bankanum er sett," segir í rökstuðningnum.

Þá segir Seðlabankinn að hagvísar bendi til þess að eftirspurn, sérstaklega einkaneysla, hafi vaxið hratt allt til loka síðasta árs. Þá gæti enn spennu á vinnumarkaði og kjaraviðræðum sé ekki lokið. Gengi krónunnar hafi lækkað og hafi að undanförnu verið lægra en reiknað var með í nóvemberspánni. Verðbólguhorfur til skamms tíma séu því lakari en í nóvember og við stýrivaxtaákvörðun bankastjórnar í desember.

Líklegt að fasteignaverð lækki

„Á hinn bóginn hafa fjármálaskilyrði versnað enn frá síðustu vaxtaákvörðun, bæði á alþjóðlegum markaði og innanlands. Dregið hefur úr framboði lánsfjár til heimila og fyrirtækja og lánskjör hafa versnað. Þá hefur hlutabréfaverð lækkað verulega það sem af er ári sem eykur fjármagnskostnað og veikir efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. Líklegt er að verðlag fasteigna muni lækka á komandi tíð. Lækkun var spáð í nóvember en hún gæti orðið meiri en þá var reiknað með þótt hún hefjist síðar," segir í rökstuðningnum.

Enn fremur að þessi þróun vinni með aðhaldsstefnu Seðlabankans og dragi úr vexti eftirspurnar og verðbólguþrýstingi, auk beinna áhrifa lækkandi fasteignaverðs á verðbólguna. „Óvíst er hve hratt þetta gerist en ólíklegt er þó að meiri samdráttur í efnahagslífinu en Seðlabankinn spáði í nóvember leiði til hraðari hjöðnunar verðbólgu framan af spátímabilinu. Gengi krónunnar gæti veikst um leið og dregur úr framboði erlends fjármagns. Það gæti ýtt undir verðbólguvæntingar, valdið launaskriði og þannig tafið hjöðnun verðbólgunnar," segir Seðlabankinn.

Útilokar ekki nýjan vaxtaákvörðunardag

Bankinn segir ennig að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi ekki breyst að marki frá því í nóvember. Óvissa sé þó mun meiri en áður, ekki síst um áhrif versnandi fjármálaskilyrða, bæði minna framboðs lánsfjár og hærra vaxtaálags, á framvindu eftirspurnar og verðbólgu. „Til lengri tíma ræðst verðbólguþróunin einkum af samspili gengisþróunar og framleiðsluspennu. Seðlabankinn mun fylgjast mjög grannt með framvindu efnahagsvísbendinga á komandi vikum, ekki síst vísbendingum um áhrif slakari fjármálaskilyrða á útlán og eftirspurn," segir Seðlabankinn.

Davíð Oddsson var spurður að því hvort von væri á annarri stýrivaxtaákvörðun fyrir næstu tilkynntu ákvörðun í apríl og sagði hann að það væri ekki útilokað. Engin ákvörðun hefði þó verið tekin um það að fjölga stýrivaxtaákvörðunardögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×