Viðskipti innlent

Danir telja að FL Group selji í Royal Unibrew

Danir telja að slappt uppgjör FL Group á síðasta ári auki líkurnar, fremur en hitt, á að FL Group selji rúmlega 25% hlut sinn í bruggverksmiðjunni Royal Unibrew.

Fjallað er ítarlega um málið á viðskiptavefnum brösen.dk í dag. Þar er m.a. rætt við Jón Sigurðsson forstjóra FL Group sem er ekki í söluhugleiðingum og sér ýmsa möguleika í stöðunni hvað vöxt og viðgang Royal Unibrew varðar. Og Jón er ánægður með að bruggverksmiðjurnar hafi lokað Ceres-brugghúsi sínu í Árósum eins og FL Group þrýsti á um að gert yrði.

Jens Houe Thomsen sérfræðingur í brugghúsum hjá greiningu Jyske Bank segir í samtali við börsen.dk að FL Group sé undir þrýstingi að selja hlut sinn í Royal Unibrew sökum hins slæma uppgjörs frá síðasta ári. Því muni bankinn ekki breyta ráðgjöf sinni um sölu á hlutum í bruggverksmiðjunni.

Og í börsen er bent á að hollenska fjármálafyrirtækið Theodor Gilissen Bankiers hafi nýlega bent á Royal Unibrew sem eitt upplagðasta kauptækifæri á bruggheiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×