Viðskipti innlent

Álag eykst á Glitnisbréf

Ingvar H. Ragnarsson
Ingvar H. Ragnarsson

Fimm punkta hækkun á skuldatryggingarálag (CDS) á fimm ára skuldabréf Glitnis í kjölfar forstjóraskipta gekk til baka að hluta í gær. Í lok dags stóð hækkunin eftir breytingar í tveimur punktum.

Þrítugasta apríl var álagið milli 24 og 25 punktar, en nálægt 30 punktum við opnun markaða í gær. „Í lok dags var álagið svo komið í 27 punkta,“ segir Ingvar H. Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar bankans. Á sama tíma hefur skuldatryggingarálag á bréf hinna bankanna svo gott sem staðið í stað. Kaupþing er nálægt 30 punktum og í gær hafði álag á bréf Landsbankans hækkað í 24, um tvo punkta.

Ingvar segir viðtökur hafa verið góðar hjá greiningaraðilum en forsvarsmenn bankans, nýr forstjóri og fráfarandi, ásamt stjórnarformanni kynntu breytingarnar í Lundúnum í fyrradag og á Norðurlöndum í gær. Áréttað var á fundunum að ekki væri stefnubreytingar að vænta hjá bankanum. „Þá er jákvætt að Moody‘s staðfesti lánshæfismat sitt í gær, eins og búist var við,“ bætir Ingvar við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×