Innlent

Koma fljúgandi til að krækja í hangikjötið úr torfkofanum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hangikjötið sem fjölskylda á sunnanverðum Vestfjörðum reykir í gömlu torfhúsi er svo vinsælt að dæmi eru um að menn komi á flugvél að sunnan til að krækja sér í kjötlæri. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Staður í Reykhólasveit er ekki beint í alfaraleið. Jörðin er við mynni Þorskafjarðar um tíu kílómetra vestan Reykhóla. Staður státar af 150 ára gamalli kirkju og álíka gömlu torfhúsum, sem voru endurbyggð fyrir sex árum.

Þarna búa þrjár kynslóðir, hjónin Eiríkur Snæbjörnsson og Sigfríður Magnúsdóttir, ásamt dóttur sinni, Rebekku Eiríksdóttur, tengdasyninum Kristjáni Ebenezerssyni og dætrum þeirra, Védísi og Anítu. Torfhúsin eru talin hafa verið nýtt frá fyrstu tíð til að reykja matvæli fyrir heimilið.



Fjölskyldan við Reykskemmuna, sem er í 150 ára gömlu torfhúsi.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson, Stöð 2.
Um síðustu aldamót hóf fjölskyldan að selja reyktar afurðir undir merkjum bændafélagsins Beint frá býli. Ljósmynd sem Reykhólavefurinn birti á dögunum af mönnum sem komu á flugvél segir sitt um vinsældir hangikjötsins en þeir komu fljúgandi frá Akranesi til að sækja kjötið. Aðrir aka um langan veg. „Það kom einn frá Ísafirði áðan að ná sér í læri,” sagði Eiríkur.



Þessir komu á flugvél.Mynd/Reykhólavefurinn.
Þegar spurt er um hvað tryggi gott hangikjöt segjast þau nota bæði tað og birki við reykinguna en svo bara þær aðferðir sem Íslendingar hafa brúkað í gengum aldirnar.

„Svo er náttúrlega munur á þessu kjöti sem er reykt við svona aðstæður og því sem reykt í þessum ofnum, sem tekur einn til tvo sólarhringa að reykja, hér hengur þetta. Þetta er hangikjöt. Hitt er ekki hangikjöt, - það er reykt kjöt,” segir Eiríkur.

Það var lítið orðið eftir af hangikjötinu þegar við vorum að mynda og raunar er það orðið uppselt fyrir þessi jól. „Við höfum alltaf selt upp,” sagði Eiríkur.

Staður í Reykhólasveit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×