Innlent

Víkja sæti í nauðgunarmáli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari hefur úrskurðað að hann sjálfur, Ásgeir Magnússon og Sigriður Ólafsdóttir skuli víkja úr sæti dómara í máli hins opinbera gegn Pólverja sem ákærður var fyrir nauðgun á Hótel Sögu.

Héraðsdómur hafði sýknað manninn, meðal annars af þeirri ástæðu að hann hefði ekki gerst sekur um ofbeldi í garð stúlkunnar sem í hlut átti. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem ómerkti dóminn og vísaði honum aftur til aðalmeðferðar og dóms í héraði að nýju.

Í úrskurðinum kemst Pétur Guðgeirsson að þeirri niðurstöðu að réttur sakborningsins til að hljóta sanngjarna málsmeðferð sé ekki tryggður ef hann, Ásgeir og Sigríður dæmi í málinu og því skuli þau víkja sæti.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi sakborningsins, segir að málið sé komið á núllpunkt og flytja þurfi það frá upphafi. „Það mátti skilja dóm Hæstaréttar á þann veg að þetta væru tilmæli um að sakfella í málinu. En nú hefur dómur Hæstaréttar ekkert að segja og það þarf að flytja málið að nýju," segir Sveinn Andri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×