Innlent

Húsvíkingar funda um álver á Bakka

Bergur Elías Ágústsson
Bergur Elías Ágústsson

Alcoa mun síðar í þessum mánuði leggja fram hjá Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík með um 250.000 tonna framleiðslugetu á ári. Þetta var meðal þess sem kom fram á fjölmennum borgarafundi sem sveitarfélagið Norðurþing stóð fyrir á Húsavík í kvöld. Á fundinum kynntu fulltrúar Norðurþings, Landsnets, Landsvirkjunar, HRV og Alcoa undirbúning og stöðu mála varðandi fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík.

Í máli Bergs Elíasar Ágústssonar, sveitarstjóra Norðurþings, kom fram að undirbúningsvinna fyrir álver á Bakka sé í fullum gangi. Meðal annars sé nýtt svæðisskipulag vegna fyrirhugaðrar nýtingar háhitasvæða í Þingeyjarsýslum í höfn og hafi verið samþykkt af viðkomandi sveitarstjórnum og staðfest af umhverfisráðherra. Í skipulaginu er meðal annars fjallað um verndun og nýtingu háhitasvæða og háspennulínur á öllu skipulagssvæðinu. Forhönnun og frumkostnaðaráætlun vegna stækkunar Húsavíkurhafnar er lokið. Siglingamálastofnun vinnur nú að gerð hafnarlíkans fyrir höfnina. Hjá sveitarfélaginu er nú meðal annars unnið að nauðsynlegum breytingum á staðsetningu iðnaðarlóða í aðalskipulagi og í sumar verður unnið að fornleifarannsóknum á Bakka.

Bergur Elías dró saman helstu niðurstöður fundarins í lokin og sagði þá meðal annars "Hér voru kynnt ný og mikilvæg skref í þá átt að nýta auðlindir Norðausturlands til heilla fyrir íbúa fjórðungsins og landsins alls. Nýtt álver á Bakka verður kærkomin ný undirstaða fyrir atvinnulíf á svæðinu og mikilvæg viðbót í íslenskt efnahagslíf. Álver á Bakka myndi skapa 600 - 700 störf á Norðurlandi, um 1000 störf á landinu öllu og skapa umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir þjóðarbúið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×