Umfjöllun og myndir: FH - ÍBV 20-28 | ÍBV er Íslandsmeistari

Benedikt Grétarsson í Kaplakrika skrifar
Leikmenn ÍBV lyfta bikarnum á loft
Leikmenn ÍBV lyfta bikarnum á loft Vísir/Andri Marinó
ÍBV er Íslandsmeistari karla í handbolta árið 2018. Eyjamenn unnu FH 20-28 í Kaplakrika og einvígið 3-1. ÍBV vann þar með þrefalt í vetur en áður hafði liðið tryggt sér bikar- og deildarmeistaratitilinn. Frábær árangur hjá frábæru liði. Til hamingju ÍBV!

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Vísis, var á vellinum og tók myndirnar sem má sjá í flettiglugganum neðst í fréttinni.

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í liði ÍBV með 6 mörk og Aron Rafn Eðvarðsson varði 13 skot. Markahæstur í liði FH var Einar Rafn Eiðsson með 8 mörk. Birkir Fannar Bragason varði 9 skot í markinu.

Töluverð undiralda var fyrir leikinn eftir margumtalað brot Andra Heimis Friðeikssonar á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni í þriðja leik liðanna úti í Eyjum. Andri Heimir var í leikbanni en Gísli Þorgeir var mættur í byrjunarliðið ásamt Ásbirni Friðrikssyni sem var ekkert með í síðustu tveimur leikjum vegna tognunar á kálfa.

Þessir tveir kappar voru þó greinilega langt frá því að vera 100% klárir og sóknarleikur FH varð stirður fyrir vikið. Varnarleikur ÍBV var að venju sterkur og heimamenn áttu í miklu basli með hina margfrægu „ÍBV-vörn“.

Eyjamenn komust í 7-3 og á þessum kafla voru það gömlu Haukamennirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Sigurbergur Sveinsson sem reyndust FH erfiðir og leiddist það hreint ekki neitt..

Innkoma Ísaks Rafnssonar í sókn FH hafði góð áhrif á heimamenn og þeir minnkuðu muninn í tvö mörk þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Ég verð að setja spurningarmerki við þá ákvörðun FH-inga að reyna við „sirkus-mark“ í stöðunni 9-11 og aðeins um 30 sekúndur eftir af hálfleiknum. Eyjamenn komust inn í sendinguna, brunuðu upp og skorðu síðasta mark hálfleiksins, 9-12.

Síðari hálfleikur var í raun aldrei spennandi. ÍBV komst í 17-11 og þrátt fyrir ágæta spretti FH, voru Eyjamenn einfaldlega betri á öllum sviðum. Það munaði miki um að lykilmenn FH voru greinilega ekki heilir heilsu og undirritaður hafði aldrei trú á því að FH væri að koma til baka.

ÍBV er því Íslandsmeistari í annað skipti í sögunni en Eyjamenn hrósuðu einnig sigri í Hafnarfirði þegar þeir lögðu Hauka 2014 í mögnuðum leik. Til hamingju ÍBV!

Af hverju vann ÍBV leikinn?

Eyjamenn eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum og eiga sigurinn fyllilega skilið. Þeir spiluðu góða vörn og Aron Rafn var virkilega sterkur í rammanum. Besta lið Íslands er Íslandsmeistari.

Hverjir stóðu upp úr?

Gömlu Haukamennirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Sigurbergur Sveinsson voru flottir. Róbert Aron átti sömuleiðis góðan leik og Elliði er magnaður leikmaður. Dagur Arnarsson kom mjög sterkur inn í lok leiksins.

Einar Rafn Eiðsson var langbestur FH-inga og Birkir Fannar Bragason kom sterkur í markið í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Hornamenn beggja liða voru ekki að nýta færin sín í horninu vel. Sóknarleikur FH var líka gríðarlega stirðuyr á köflum en stór ástæða hlýtur að vera áðurnefnd meiðsli lykilmanna.

Hvað gerist næst?

Sigling með Herjólfi og flugeldar, það er bara þannig!

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.