Viðskipti erlent

33,5 milljónir hafa sótt um atvinnuleysisbætur

Samúel Karl Ólason skrifar
Opinberar tölur sem birtar voru í dag sýna að uppsögnum hefur farið fækkandi á undanförnum vikum en þær eru enn gífurlega margar.
Opinberar tölur sem birtar voru í dag sýna að uppsögnum hefur farið fækkandi á undanförnum vikum en þær eru enn gífurlega margar. AP/Tony Dejak

Um það bil 3,2 milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur í síðustu viku. Í heildina hafa 33,5 milljónir sótt um bætur á undanförnum sjö vikum. Í febrúar var atvinnuleysi í Bandaríkjunum í 3,5 prósentum og hafði ekki verið lægra í um 50 ár.

Nú hefur fimmti hver Bandaríkjamaður sem var í vinnu í febrúar sótt um atvinnuleysisbætur, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. 22,7 milljónir eru á atvinnuleysisbótum. Einhverjum hefur verið hafnað og þar að auki eru fleiri umsafnir til skoðunar.

22,7 milljónir samsvara 15,5 prósentum vinnuaflsins sem rétt hefur á atvinnuleysisbótum.

Opinberar tölur sem birtar voru í dag sýna að uppsögnum hefur farið fækkandi á undanförnum vikum en þær eru enn gífurlega margar. Búist er við því að opinberar atvinnuleysistölur, sem birtar verða á morgun, muni sýna mesta atvinnuleysi Bandaríkjanna frá því því mælingar hófust eftir seinni heimsstyrjöldina.

AP segir líkur á því að þær tölur muni þó ekki fanga ástandið fullkomlega. Margir vinni færri tíma en áður og aðrir hafi þurft að sætta sig við lækkuð laun. Þá séu margir sem hafi ekki enn skráð sig atvinnulausa. Fólk sem eigi ef til vill ekki rétt á bótum og átti sig á því að mjög erfitt sé að finna vinnu um þessar mundir.

Þá hafa hagfræðingar spáð því að samdráttur á vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna verði um 40 prósent á öðrum ársfjórðungi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×