„Þetta er ógeðslega fyndinn gaur og sleipur í ensku. Ég held hann eigi eftir að pluma sig vel á sviðinu," segir leikstjórinn Ragnar Hansson.
Hann, Gunnar bróðir hans og Ari Eldjárn eru að flytja til landsins sænska grínistann Johan Glans. Hann stígur á svið á stóra sviði Þjóðleikhússins 29. september og mun Ari hita upp fyrir hann.
„Hann var með okkur Gunnari í einum sjónvarpsþætti af Mér er gamanmál og hann kom hvað mest á óvart. Hann var að mörgu leyti fyndnasti gaurinn og er algjör súperstjarna í Svíþjóð."
Glans hefur undanfarin tvö ár leikið í söngleiknum Spamalot í heimalandi sínu en er núna á leiðinni í uppistandsferðalag um Norðurlöndin.
Aðspurður segir Ragnar að uppistand Glans höfði til allra.
„Hann er ekki vinsælastur í Svíþjóð fyrir ekki neitt. Hann tók snemma ákvörðun á ferlinum að segja hluti eins og „fullorðinsstund" í staðinn fyrir eitthvað dónalegra og hefur komist lengra á því. Grínið hans er svolítið allra. Hann er mjög fjölskylduvænn en samt beittur."
Miðasala á uppistandið hefst á Midi.is og Leikhus.is síðar í vikunni. -fb
Lífið