Viðskipti innlent

Bakkabræður og Björgólfur fallnir af lista yfir ríkustu menn Bretlands

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Mynd/Daníel Rúnarsson
Björgólfur Thor Björgólfsson og Bakkabræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir eru ekki lengur á lista yfir 1000 ríkustu menn Bretlands sem Sunday Times birti í gær.

Fyrir ári var Björgólfur Thor í 29. sæti á lista yfir ríkustu menn Bretlands. Eignir hans voru metnar á 2,07 milljarða punda eða um 300 milljarða íslenskra króna miðað við þáverandi gengi. Björgólfur féll á listanum frá því ári áður en þá var hann í 23. sæti.

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru fyrir ári saman í 213. sæti á lista Sunday Times með eignir upp á 410 milljónir punda eða um 59 milljarða íslenskra króna. Árið 2007 voru þeir Lýður og Ágúst í 53. sæti og voru eignir þeirra þá metnar á nær þrefalt hærri upphæð eða um 1,2 milljarða punda.

Í Sunday Times kemur fram að samanlagt tap ríkustu Bretanna síðasta árið nemur hundrað fimmtíu og fimm milljörðum punda sem jafngildir rúmlega tuttugu þúsund milljörðum íslenskra króna.

Smásölukóngurinn Sir Philip Green er í 17. sæti og Mike Ashley, eigandi Newcastle United, er í 60. sæti yfir ríkustu menn Bretlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×