Stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur lauk í gær við aðgerðaráætlun vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða á hótelum og veitingahúsum á Reykjanesi. 200 félagsmenn sem starfa við móttöku, í verslunum, veitingaþjónustu og ræstingum fá tækifæri til að greiða atkvæði um verkfall.
„Við getum alveg sagt að þetta eru mjög sambærilegar aðgerðir og Efling og VR hafa kynnt. En við munum kynna okkar félagsmönnum aðgerðaráætlunina fyrst áður en við auglýsum þetta víðar,“ segir Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.
Menn gáfust of fljótt upp í samningaviðræðum
Kjaraviðræðum milli Samtaka atvinnulífsins og VR, EFlingar. Verkalýðsfélaga á Akranesi og Grindavík var slitið í febrúar. Hörður segir að menn hafi verið of fljótir að gefast upp.„Ég trúi nú bara ekki öðru en að menn setjist niður og reyni að klára þetta. Mér finnst okkar viðsemjendur ekki hafa komið í viðræðurnar að neinni alvöru. Við fengum t.d. aðeins tvo fundi til að ræða launaliðinn, ég vona að aðgerðirnar nú komi viðræðunum aftur af stað,“ segir Hörður.

Óvissan verst
Þuríður H. Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness segir óvissuna sem nú ríki hafa afar neikvæð áhrif.„Fólk heldur að sér höndum. Söluaðilar sem eru að selja okkur og okkar svæði vísa frekar eitthvað annað meðan óvissan er til staðar,“ segir Þuríður.
Þá velji ferðamenn öryggi fram yfir óvissu.
„Þeir sem eru ennþá að leita og þeir sem eru að hugsa sig um þeir velja eitthvað annað en Ísland, einhverja vissu,“ segir hún.