Viðskipti innlent

26,4 milljóna króna gjaldþrot á einu ári

Björn Þorfinnsson skrifar
Sverrir Einar Eiríksson, athafnamaður
Sverrir Einar Eiríksson, athafnamaður
Skiptum er lokið í þrotabúi fyrirtækis Jupiter gisting ehf., sem var í eigu athafnamannsins Sverris Einars Eiríkssonar. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur námu um 26,4 milljónum króna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengdist fyrirtækið um tíma rekstri á Hótel Brimi í Skipholti.

Athygli vekur að fyrirtækið var stofnað í maí 2018 en var úrskurðað gjaldþrota í maí 2019. Meðal áhugafólks um krassandi gjaldþrot þykir það afar vel gert að ná að kveikja í kennitölu á svo skömmum tíma.

Þetta er annað gjaldþrot félags í eigu Sverris Einars á árinu. Í janúar lauk skiptum í þrotabúi starfsmannaleigunnar Proventus ehf. sem Sverrir átti og rak. Um 80 starfsmenn, flestir pólskir, störfuðu á vegum fyrirtækisins þegar mest var. Kröfur í búið námu 114 milljónum króna en engar eignir fundust.

Viðskiptaferill Sverris Einars hefur verið fjölbreyttur í meira lagi. Hann hefur keypt gull af Íslendingum, stundað demantaviðskipti, opnað smálánafyrirtæki sem og listgallerí. Þá hefur hann selt Herbalife, boðið Íslendingum upp á 95% fasteignalán, rekið gistiheimili sem og leigufélag. Þá rak hann um tíma veitingastaðinn Gömlu smiðjuna og í kjölfarið Þrastalund í Grímsnesi.

Síðastnefnda starfsemin rataði oft á síður fjölmiðla. Meðal annars fyrir að nota áhrifavalda óspart til þess að koma staðnum á framfæri, selja vatnsflösku á 750 krónur og að selja áfengi í kjörbúð staðarins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins einbeitir Sverrir Einar sér nú að útleigu lúxuseigna á Bretlandseyjum.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×