Viðskipti innlent

Fara fram á að eignir Sverris gullsala verði boðnar upp

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Sverrir Einar Eiríksson á að baki ansi skrautlegan viðskiptaferil.
Sverrir Einar Eiríksson á að baki ansi skrautlegan viðskiptaferil. VÍSIR
Landsbankinn hefur farið fram á nauðungarsölu níu fasteigna á Kjalarnesi. Allar fasteignirnar eru í eigu félagsins KD7 ehf. en félagið er í eigu Sverris Einars Eiríkssonar. Viðskiptablaðið greinir frá þessu. 

Skrautlegur ferill að baki

Sverrir Einar er þekktur fyrir að hafa rekið félagið Kaupum gull í kjölfar hrunsins árið 2008 og fyrir það rak hann starfsmannaleiguna Proventus ehf. Hún var tekin til gjaldþrotaskipta árið 2009. Sama ár lagði hann land undir fót og fór til Afríku og stundaði demantaviðskipti fram til ársins 2011.

Árið 2012 fór hann aftur að kaupa gull af Íslendingum. Viðskiptavinir gátu komið með gull, demanta og málverk og lánaði hann þeim peninga út á það. 

Sverrir stofnaði ásamt fleirum smálánafyrirtækið Hraðpeningar sem endaði með málaferlum þegar hann gerði kröfu um að fá þriðjungs eignarhlut sinn viðurkenndan. Málinu var vísað frá.

Þá rak Sverrir pítsastaðinn Gömlu smiðjuna og komst í fréttir þegar hann rukkaði viðskiptavin um leigugreiðslu sem viðskiptavinurinn kannaðist ekkert við að skulda. Sverrir gaf þá yfirlýsingu í kjölfarið að hann hafi ruglast á viðskiptavininum og nánum fjölskyldumeðlim.

Árið 2017 hóf byggingafélagið Þak, sem var í eigu Sverris, sölu á 10 íbúðum á Kársnesbraut í Kópavogi sem fólki bauðst að fjármagna með allt að 95% láni.

Nýverið rak Sverrir veitingastaðinn Þrastarlund og vakti markaðssetningin mikla athygli en dögurðurinn sem staðurinn bauð upp á var lofsunginn af helstu samfélagsmiðlastjörnum landsins. 

Fasteignirnar sem Landsbankinn vill bjóða upp eru allar í fyrirtækjahverfinu við Esjumela á Kjalarnesi. 


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.