Viðskipti innlent

114 milljóna gjaldþrot starfsmannaleigu Sverris

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár.
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár. Vísir
Lýstar kröfur í þrotabú starfsmannaleigunnar Proventus ehf. námu alls rúmlega 114 milljónum króna, ef marka má Lögbirtingablaðið í dag. Ekkert fékkst upp í kröfurnar. Starfsmannaleigan var mest með um 80 starfsmenn, flesta pólska, á mála hjá sér fyrir hrun en annar stofnenda, og andlit leigunnar, var Sverrir Einar Eiríksson sem reglulega hefur ratað í fréttir á undanförnum árum fyrir skrautlega viðskiptasögu.

Proventus var hins vegar tekið til gjaldþrotaskipta í júní árið 2009. „Það fór með þetta eins og flest önnur fyrirtæki í þessum geira,“ sagði Sverrir Einar í samtali við Viðskiptablaðið skömmu eftir hrun og bætti við að starfsemi félagsins hafi dregist saman um 70% á örfáum mánuðum. Gengisþróun hafi leikið erlenda verkamenn grátt.

„Þetta er ofboðsleg kjaraskerðing sem segja má að jafngildi þrjátíu prósenta launalækkun,“ sagði Sverrir í forsíðufrétt Fréttablaðsins.

Umfjöllun um Promentus sem birtist í Viðskiptablaðinu í upphafi árs 2008.
Þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota sat Sverrir hins vegar ekki í stjórn félagsins, en hafði þó prókúruumboð. Eini stjórnarmaður félagsins var pólskur maður sem hafði flúið landið vegna skulda. Meðal kröfuhafa var lífeyrissjóðurinn Gildi, sem gerði rúmlega 40 milljóna króna kröfu í búið.

Sverrir kærði sýslumann Reykjavíkur og tvo starfsmenn hans fyrir brot gegn hegningarlögum í tengslum við gjaldþrotaskipti Proventus. Hann sakaði sýslumanninn auk starfsmannanna tveggja um að falsa aðfaragerð sem gjaldþrotaskiptin voru byggð á.

Sverrir lét þó ekki gjaldþrot Proventus stöðva sig heldur skipti um kúrs. Hann gerðist gullkaupamaður, stundaði demantaviðskipti, opnaði smálánafyrirtæki, bauð 95% íbúðalán og rak veitingastaði; til að mynda Gömlu Smiðjuna og Þrastalund í Grímsnesi. Nánar má fræðast um viðskiptasögu hans hér.





Uppfært

Fyrirtækið Valbjörg ehf. vill koma því á framfæri að efni fréttarinnar, starfsmannaleigan Proventus, tengist ekki á nokkurn hátt starfsmannaleigunni sem rekin er undir merkjum Proventus í dag. Um sitthvort fyrirtækið er að ræða, þrátt fyrir að nöfn þeirra kunni að gefa annað til kynna.


Tengdar fréttir

Sýslumaður kærður vegna pólskrar starfsmannaleigu

Hæstiréttur Íslands staðfesti gjaldþrotaskipti pólsku starfsmannaleigunnar Proventus ehf., en prókúruhafi leigunnar, Sverrir Einar Eiríksson hefur kært sýslumann Reykjavíkur og tvo starfsmenn hans fyrir brot gegn hegningarlögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×