Skoðun

Fjörutíu

Haukur Örn Birgisson skrifar
Það er ekki langt síðan ég hélt upp á fertugsafmælið. Mér fannst það ekkert stórmál enda lít ég enn á sjálfan mig sem strák. Ég veit samt vel að ég er það ekki. Ég er farinn að gera alls konar hluti sem raunverulegir strákar gera ekki.

Með aldrinum fer maður að haga sér undarlega, segja skrítna hluti og hafa áhuga á hlutum sem áður þóttu glataðir. Oft á dag stend ég sjálfan mig að því að segja börnunum mínum pabbabrandara, sem þau hrista hausinn yfir og skammast sín fyrir. Ég skráði mig á hverfasíðu á Face­book, þar sem miðaldra nágrannar mínir kvarta undan aksturslagi fólks á tilteknum gatnamótum og unglingum sem aka um hjálmlausir á vespum. Þeir froðufella af reiði þegar einhver skýtur upp flugeldi um mitt sumar eftir klukkan tíu að kvöldi og svo birta þeir ljósmyndir af hundaskít á gangstéttum til að hafa upp á eigandanum. Vel á minnst, hver tekur eiginlega ljósmynd af kúk og birtir á samfélagsmiðli með GPS-hnitum saursins? Nema hvað ...

Veðurfar og ættfræði fara að skipa stóran þátt í samtölum manns og alltof margir vinir finna hamingju í maraþoni og Járnkallskeppnum. Ef þeir eru ekki orðnir Landvættir þá eru þeir alveg að verða það. Tilvistarkreppan er slík að nauðsynlegt verður að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að líkami og sál séu ekki komin fram yfir síðasta söludag.

Það er einhver firra sem leggst yfir fertuga. Líf manns verður eins og bíómynd sem er sýnd örlítið úr fókus, þannig að maður áttar sig ekki fyllilega á því hvers vegna maður gerir það sem maður gerir. Vonandi eldist þetta af manni.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×