Viðskipti innlent

Mesti samdráttur í utanlandsferðum Íslendinga í áratug

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hagsjáin dregur þá ályktun að brotfall WOW hafi sín áhrif.
Hagsjáin dregur þá ályktun að brotfall WOW hafi sín áhrif. Vísir/Vilhelm
Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru í ágústmánuði 14% færri en á sama tíma fyrir ári. Þetta er mesti samdráttur sem hefur sést á flugferðum Íslendinga í ágústmánuði síðan 2009. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Yfir sumarmánuðina voru utanlandsferðir Íslendinga samtals 10% færri en í fyrra sem er mesti árlegi samdráttur yfir sumarmánuði síðan 2009.

Ferðamálastofa gerði könnun í upphafi árs þar sem landsmenn voru spurðir um ferðaáform ársins. Þá töldu 53% Íslendinga líkur á borgarferð erlendis á árinu og 44% hugðust fara í sólarlandaferð. Marktækt fleiri sögðust ætla í sólarlandaferð í ár en á árunum 2011-2018.

„Það má fastlega gera ráð fyrir að þau áform hafi breyst í kjölfar gjaldþrots WOW air. Einnig spilar inn í að sumarið á suðvesturhorni landsins var einstaklega sólríkt og gott og því kannski minni þörf á sólarlandaferð en ella,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Velta innlendra greiðslukorta dróst saman um 1,1% að raunvirði milli ára í ágúst og er þetta mesti samdráttur síðan í júní 2013. Samdráttur mældist bæði í verslunum hér á landi og erlendis.

Í ágúst mældist samdráttur upp á 0,3% milli ára í verslunum hér á landi miðað við fast verðlag og 4,4% erlendis miðað við fast gengi.

Til samanburðar var vöxturinn 17% erlendis og 5% í verslunum hér á landi í ágúst í fyrra. Það er því útlit fyrir að breyting hafi orðið á neyslu Íslendinga í ljósi færri utanlandsferða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×