„Ég hef aldrei gert það,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson í Domino's Körfuboltakvöldi eftir leikinn, aðspurður hvort hann hefði einhvern tímann látið leikmann teikna upp kerfi í leikhléi þegar hann var þjálfari.
„Ég er dálítið hissa því mér finnst þetta vera svona augnablik sem þjálfarinn á að fanga. Maður hefur gaman að þessu,“ sagði Teitur Örlygsson.
Í upphafi virtist Jón Arnór Stefánsson eiga að fá boltann. Hann endaði hins vegar í höndunum á Kristófer Acox en skot hans geigaði. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gat andað léttar en hann gleymdi Kristófer í þessu atviki.
ÍR leiðir einvígið, 2-1, og með sigri í fjórða leik liðanna í Seljaskóla á fimmtudaginn verða Breiðhyltingar Íslandsmeistarar í fyrsta sinn síðan 1977.
Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.