Innlent

„Þetta er bara brot af kostnaði“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hyggst krefjast ítarlegri svara frá dómsmálaráðherra vegna kostnaðar íslenska ríkisins vegna Landsréttarmálsins. Helga Vala lagði fram fyrirspurn í lok mars en líkt og kunnugt er sagði Sigríður Andersen af sér embætti eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt staðið að skipan dómara við Landsrétt.

Samkvæmt svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra sem birt var í dag hefur ríkið þegar greitt 23 milljónir í kostnað og um 9,5 milljónir eru enn ógreiddar. Þá er ótalinn kostnaður af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um starf dómara og starfsmanns hennar, kostnaður vegna auglýsinga og annar tilfallandi kostnaður vegna undirbúnings.

Sjá einnig: Ákvörðun dómsmálaráðherra hefur kostað ríkið tugi milljóna króna

„Það vantar líka allan kostnað ríkislögmanns við öll þessi mál, bæði hér heima og fyrir erlendum dómstólum. Það vantar kostnað Landsréttar vegna þeirra fjögurra dómara sem að ekki geta sinnt dómarastörfum í allan þennan tíma þannig að þetta er brot af kostnaði og bara það sem er í hendi núna,“ segir Helga Vala.

Aðspurð kveðst hún ætla að fara fram á ítarlegri svör frá ráðherra. „Ég held að almenningur eigi rétt á því að fá að vita hvað þessi afleikur Sjálfstæðisflokksins hefur kostað okkur.“ 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.