Viðskipti innlent

Telur að Síminn hafi brotið gegn sam­keppnis­lögum

Eiður Þór Árnason skrifar
Síminn telur að fyrirkomulag sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins.
Síminn telur að fyrirkomulag sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Vísir/Hanna

Samkeppniseftirlitið telur að Síminn kunni að hafa brotið gegn ákvörðunum eftirlitsins við sölu á áskriftum að enska boltanum. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar í dag.

Þar kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi birt Símanum andmælaskjal í dag sem lið í rannsókn stofnunarinnar á mögulegum brotum Símans. Fyrri ákvarðanir stofnunarinnar takmarka getu Símans til að tvinna saman sölu fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu.

„Í andmælaskjalinu kemur fram að stofnunin telur að Síminn kunni að hafa brotið gegn 3. gr. ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2015 og gegn 19. gr. ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2015 sem báðar fela í sér bann við samtvinnun á tilteknum þjónustuþáttum. Hins vegar er ekki tekin afstaða í skjalinu til þess hvort 11. gr. samkeppnislaga kunni að hafa verið brotin,“ segir í tilkynningu Símans til Kauphallar.

Er stofnunin sögð telja það koma til greina að beita fyrirtækið íþyngjandi viðurlögum eða fyrirmælum vegna þessa. Hins vegar er ekki tekin afstaða í skjalinu til þess hvort 11. gr. samkeppnislaga kunni að hafa verið brotin.

Í árshlutareikningi Símans fyrir fyrri hluta þessa árs kom fram að Samkeppniseftirlitið hefði í júlí á þessu ári birt frummat sitt þar sem fram komi að „fyrirkomulag á sölu Símans á áskriftum vegna enska boltans kynni að fara í bága við ákvæði samkeppnislaga og afleiddar ákvarðanir sem Samkeppniseftirlitið hefur tekið.“

Síminn telur „að fyrirkomulag um sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög og þær ákvarðanir sem félagið hefur gengist undir á grundvelli samkeppnislaga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×