Fótbolti

Ítölsku vegg­spjöldin gegn kyn­þátta­for­dómum sem gera heiminn orð­lausan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndir af veggspjöldunum umdeildu.
Myndir af veggspjöldunum umdeildu. Mynd/Twitter

Sería A hneykslar marga með myndum af öpum á glænýjum baráttuspjöldum sínum gegn kynþáttafordómum.

Kynþáttafordómar eru mikið vandamál á Ítalíu eins og hefur komið vel fram í mörgum myndum á síðustu vikum og mánuðum, allt frá hegðun áhorfenda upp í framsetningu á forsíðum íþróttablaða. Fáir áttu samt von á því að Sería A deildin sjálf myndi misstíga sig í þessum málum.

Það má segja að deildin sjálf hafi klúðrað síðustu skrefum sínum all svakalega.



Sería A er að setja af stað nýja herferð gegn kynþáttafordómum og kynnti ný veggspjöld í gær. Sumir trúa því varla sem þeir sjá þar og telja um einstaklega klaufalega tilraun að ræða.

Á veggspjöldunum þremur, sem voru kynnt í höfuðstöðvum deildarinnar í Mílanó, eru nefnilega myndir af öpum með málað andlit og undir stendur „Nei við rasisma“

„Einu sinni enn þá gerir ítalskur fótbolti heiminn orðlausan. Það er erfitt að sjá fyrir sér hvað forráðamenn Seríu A voru að hugsa með þessu eða við hverja þeir ráðfærðu sig,“ sagði í yfirlýsingu frá baráttusamtökunum Fare.

„Í landi þar sem yfirvöldum mistekst að taka á kynþáttafordómum í hverri viku hefur Sería A sett af stað herferð sem lítur út eins og sjúkur brandari. Þessar myndir eru hneyksli. Þær hafa öfug áhrif og sjá til þess að menn halda áfram að gera lítið úr fólki af afrískum uppruna,“ segir enn fremur í yfirlýsingu Fare og þar kalla menn nú eftir raunverulegum aðgerðum:

„Það er kominn tími fyrir framfarasinnuð félög í þessari deild til að láta heyra í sér.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×