Viðskipti innlent

Smári, Kári og kvótakerfið

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir Gunnar Smári og Kári telja það blasa við að stjórnmálamenn séu að færa útgerðarmönnum óheyrilega fjármuni á silfurfati.
Þeir Gunnar Smári og Kári telja það blasa við að stjórnmálamenn séu að færa útgerðarmönnum óheyrilega fjármuni á silfurfati.
Gunnar Smári Egilsson blaðamaður og verkalýðsleiðtogi heldur því fram að útgerðinni verði á þessu fiskveiðiári gefnir 71,6 milljarðar af því sem með réttu ætti að heita sameign þjóðarinnar.

Samherjamálið hefur beint sjónum manna að kvótakerfinu. Þannig ritaði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, nýverið grein sem hefur vakið mikla athygli en þar fjallar hann um makrílveiðar og ber saman verð sem fæst fyrir hann á Íslandi og í Noregi á árunum 2012 til 2018. „Það má geta sér til um heildarstærð þessa máls með því að horfa til þess að á síðustu sjö árum hafa um það bil 300 milljarðar króna af norsku verðmæti makríls horfið við það eitt að honum var landað á Íslandi.“

Makríllinn einskonar gjöf til útgerðarmanna

Kári bendir á skýrslu frá Verðlagsstofu Skiptaverðs þar sem „sést að verð á makríl sem hráefni án tillits til ráðstöfunar sem var landað í Noregi var að meðali 227% hærra en á þeim sem var landað á Íslandi. Árið 2018 var þessi munur um það bil 300%.“

Hins vegar hafi heildartekjur íslensku útgerðarinnar af makríl á því ári verið 25 milljarðar, þannig að einhvers staðar hurfu 50 milljarðar af verðmætinu við það eitt að makrílnum var landað á Íslandi.

Hafsins hetjur halda til veiða. Kári Stefánsson segir útgerðina hlunnfara sjómenn með allskyns hundakúnstum.visir/vilhelm
Kári bendir á að þó allt þetta liggi fyrir örli varla á því að stjórnmálamenn eða aðrar stofnanir láti þetta mál til sín taka eða geri athugasemdir þar við.

Gunnar Smári er einnig með reiknistokkinn á lofti og hann heldur því fram í nýlegum pistli sem hann birtir á Facebooksíðu Sósíalistaflokks Íslands að útgerðinni verði á þessu fiskveiðiári gefnir 71,6 milljarðar af almannafé. Hann miðar við gangverð á leigukvóta sem er verðmæti aflaheimilda sem úthlutað var fiskveiðiárið 2019-2020 um 76.747 milljónir króna. „Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 verður innheimt fyrir þessar veiðiheimildir 4.850 milljónir króna, eða 6,3% af raunvirði þeirra. Mismunurinn, 71.624 m.kr. verða gefnar útgerðarmönnum.“

Samherji og Brim fá 21,5 milljarða í sinn hlut

Útreikningar Gunnars Smára byggja á markaðsverði kvóta sem skráð séu af Fiskistofu. Veruleg viðskipti eru með kvóta en um 12 prósent þorskkvóta er leigður áfram. „Á síðustu tólf mánuðum hafa rúm 30 þús. tonn verið leigð fyrir um 6,9 milljarða króna, mun meira en öll þau veiðigjöld sem útgerðarmenn greiða á næsta ári fyrir allan kvótann. Engin ástæða er til að ætla að verðmæti þessara 12% þorskkvótans gefi ekki rétta mynd af verðmæti alls kvótans.“

Gunnar Smári segir að þrátt fyrir að lög banni meira en að sami aðili fái meira en 12 prósent af aflaheimildum fái Brim-samstæðan og Samherjasamstæðan 30 prósent af þessum aflaheimildum. Þær samstæður fái þannig 21,5 milljarð króna af úthlutuðum aflaheimildum á árinu.

 

Pistill Gunnars Smára í heild sinni

Fjárlagafrumvarpið:

Útgerðinni gefnir 71,6 milljarðar af almannafé

Miðað við gangverð á leigukvóta er verðmæti aflaheimilda sem úthlutað var fiskveiðiárið 2019-2020 um 76.747 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 verður innheimt fyrir þessar veiðiheimildir 4.850 milljónir króna, eða 6,3% af raunvirði þeirra. Mismunurinn, 71.624 m.kr. verða gefnar útgerðarmönnum.

Af þeirri gjöf má ætla að 10.944 milljónir króna renni til Brim-samstæðunnar (Brim (áður HBGrandi), Útgerðarfélag Reykjavíkur (áður Brim) og Ögurvík) en samstæðan ræður yfir 15,3% aflaheimilda þótt samkvæmt lögum sé óheimilt að úthluta sama aðila meira en 12% af aflaheimildum. Samherja-samstæðan (Samherji, Síldarvinnslan, Bergur-Huginn, Útgerðarfélag Akureyrar, Gjögur) fá í sinn hlut um 10.529 milljónir króna í sinn hlut, af þessari gjöf stjórnvalda, sem samanlagður kvóti þessara fyrirtækja er um 14,7% allra veiðiheimilda.

Aðeins tvær samstæður hafa náð undir sig 30% af öllum kvóta. Um 1990 var kvótaeign tíu stærstu útgerðarfyrirtækjanna innan við 20% af heildinni. Samþjöppun hinna stóru og yfirráð þeirra yfir auðlindinni hefur því vaxið hratt.

Markaðsverð á kvóta er skráð af fiskistofu. Töluverð viðskipti eru með kvóta. Um 12% af öllum úthlutuðum þorskkvóta er leigður áfram. Á síðustu tólf mánuðum hafa rúm 30 þús. tonn verið leigð fyrir um 6,9 milljarða króna, mun meira en öll þau veiðigjöld sem útgerðarmenn greiða á næsta ári fyrir allan kvótann. Engin ástæða er til að ætla að verðmæti þessara 12% þorskkvótans gefi ekki rétta mynd af verðmæti alls kvótans. Það er yfirdrifið nóg að gera stikkprufu á 12% af heildinni til að áætla verð allrar heildarinnar. Á hverju ári eru um 6,2% íbúða seld og enginn efast um að sú stikkprufa gefi rétta mynd af verðmæti allra íbúða, sveitarfélög leggja fasteignagjöld á út frá þeirri stikkprufu, bankar meta lánshæfi o.s.frv.

Það er því óumdeild að stjórnvöld gefa útgerðarmönnum 71,6 milljarð króna á næsta ári, ívið meira en þau gáfu frá sér í ár. Það má vera til einhver sem telur þetta réttlátt eða snjallt en það er engin ástæða til að deila um upphæðirnar sem útgerðarmenn fá að gjöf. Af þessum 71,6 milljarði fá tvær stærstu samstæðurnar, Brim og Samherji, um 21,5 milljarð króna af gjöf, fyrirtæki sem eru undir stjórn og fyrst og fremst í eign tveggja fjölskyldna.


Tengdar fréttir

Landráð?

Íslendingar eru sammála því að auðlindir hafsins í kringum landið þeirra séu sameiginleg eign þjóðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×