Handbolti

Þriðji sigur ÍBV sem færist nær úr­slita­keppnis­bar­áttu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ester skoraði sjö mörk í dag.
Ester skoraði sjö mörk í dag. vísir/ernir
ÍBV lyfti sér lengur frá fallsætinu í Olís-deild kvenna og nær úrslitakeppni er liðið vann fjögurra marka sigur á HK, 33-29, er liðin mættust í frestuðum leik í dag.

Leikurinn átti að fara fram í gær en leikmenn HK komust ekki til Eyja og því var leikurinn spilaður í dag.

Liðin héldust hönd í hönd fyrstu tíu mínúturnar en þá skildu leiðir. ÍBV náði mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik en var þó bara einu marki yfir í hálfleik, 14-13.

ÍBV var svo með forystuna fyrstu fimmtán mínúturnar í síðari hálfleik en HK náði að jafna metin er stundarfjórðungur voru eftir.

Eyjastúlkur voru hins vegar sterkari á síðasta stundarfjórðungnum og höfðu sigurinn mikilvæga að lokum.

Ester Óskarsdóttir, Sunna Jónsdóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir gerðu allar sjö mörk fyrir ÍBV en Darija Zecevic átti góðan leik í markinu með 35% markvörslu.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var í sérflokki í liði HK en hún skoraði níu mörk. Ágústa Huld Gunnarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir gerðu fimm hvor en Sara Sif Helgadóttir náði sér ekki á strik í markinu.

ÍBV er í næst neðsta sætinu með sjö stig en HK er í 4. sætinu með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×