Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 31-25 | Langþráður Stjörnusigur

Arnór Fannar Theodórsson skrifar
Tandri skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna.
Tandri skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna. vísir/bára
Stjarnan vann sinn annan sigur í Olís-deild karla þegar liðið lagði ÍBV að velli í TM-höllinni í kvöld, 31-25. Stjarnan hafði yfirhöndina mest allan leikinn en þeir leiddu með sex mörkum í hálfleik.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og lítið skorað á fyrstu mínútum en staðan var 2-2 eftir átta mínútna leik. Stjörnumenn tóku fljótlega öll völd á leiknum og léku á alls oddi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Vörnin hjá þeim hélt vel og Ólafur Rafn Gíslason var frábær í markinu. Í kjölfarið fengu þeir hraðaupphlaup og auðveld mörk í sókninni. Á sama tíma gekk lítið upp hjá Eyjamönnum sem virtust ekki mæta tilbúnir til leiks. Það voru heimamenn sem leiddu með sex mörk þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 16-10.

Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og náðu snemma að saxa á forskot heimamanna. Eyjamenn náðu upp stemningu í vörninni og það var allt annað að sjá liðið.

Eyjamenn náðu forystunni niður í tvo mörk en Stjörnumenn ætluðu hinsvegar ekki að gefa eftir og svöruðu áhlaupi Eyjamanna. Stjörnumenn náðu aftur tökum á leiknum eftir líflega byrjun Eyjamanna og náðu loksins að landa sigri, 31-25.

Af hverju vann Stjarnan?

Frábær fyrri hálfleikur Stjörnumanna var það sem skóp sigurinn fyrir þá í dag en þeir leiddu með sex mörkum í hálfleik sem var svo munurinn á liðinum þegar leik lauk.

Það var einnig mikill munur á markvörslu liðanna í kvöld. Ólafur var frábær í marki Stjörnunnar á meðan Jokanovic og Björn Viðar voru ekki að finna sig hjá Eyjamönnum.

Hverjir stóðu upp úr?

Tandri Már og Leó Snær voru frábærir í fyrri hálfleik og Ari Magnús átti svo frábæran seinni hálfleik. Þeir sáu um að draga vagninn fyrir Stjörnuna. Ásamt þeim var Ólafur Rafn mjög góður í marki Stjörnumanna í kvöld.

Hjá Eyjamönnum var Kristján Örn atkvæðamestur eins og svo oft áður en hann skoraði 11 mörk í kvöld.

Hvað gerist næst?

Næst tekur ÍBV á móti Fram í Eyjum og á sama tíma tekur Stjarnan fer í heimsókn í Mosfellsbæinn og taka á móti Afturledingu. Báðir þessi leikir fara fram laugardaginn 7. desember.

Rúnar: Strákarnir fengu loksins tvö stig eftir góðan leik

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var mjög sáttur með að hafa náð að klára leikinn með sigri.

„Mjög sáttur við það. Strákarnir fengu loksins tvö stig eftir góðan leik. Það hefur stundum verið bara eitt í vetur. En það kannski olli því, fyrri leikir sem við höfum misst niður í jafntefli, að það var svolítið stress á okkur í restina en í rauninni var þetta öruggt.

Það gekk nánast allt upp hjá Stjörnumönnum í kvöld og þá sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem þeir spiluðu frábærlega.

„Já, við spiluðum mjög góða vörn. Ólafur í markinu var frábær og hans innkoma er mikilvæg fyrir liðið. Hann stóð sig alveg frábærlega og á allt hrós skilið. Það var svona grunnurinn, við vorum með mun betri markvörslu en ÍBV. Í seinni hálfleik er Ari Magnús með 5 mörk í 5 skotum og 7 mörk í 9 skotum í heildina. Svo áttu eiginlega bara allir góðan leik. Ef menn voru að gera mistök þá hengdu menn ekki haus og héldu honum upp og reyndu að vinna í því sem var gott.“

„Með undantekningu frá síðasta leik, þá kláruðum leikinn. Það er stærsti munurinn. Það var kannski Ólafur í markinu, hann tók bolta þegar við vorum að aðeins að klúðra og það reyndi á okkur. Þá var hann að taka mikilvæga bolta í restina og ÍBV komst ekkert nær okkur en 3-4 mörk“ sagði Rúnar aðspurður hver munurinn hefði verið á þessum leik og fyrri leikjum.

„Við reynum að byggja ofan á það sem við erum búnir að vera gera. Ég er búinn að segja það margoft og það er mjög erfitt að segja það þegar maður hefur ekki unnið leikina en við erum búnir að spila heilt yfir vel síðustu vikur eða næstum því tvo mánuði með kannski einni undantekningu. Okkur hefur bara vantað að klára leikina og það er að koma núna. Við komumst áfram í bikarnum fyrir rúmri viku og núna vinnum við aftur í kvöld þannig það er bara jákvætt“ sagði Rúnar í lokin.

Kristinn: Mætir enginn til leiks í dag og hugsar með sér að þetta verði létt

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, var svekktur með að hafa ekki náð að landa sigri gegn Stjörnunni í kvöld.

„Vissulega og sérstaklega svekktir með frammistöðuna, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við erum ekki að framkvæma nógu góðan leik í fyrri hálfleik gegn góðu Stjörnuliði til þess að eiga mikið skilið út úr þessum leik. Enda er það munurinn í hálfleik sem er munurinn þegar uppi er staðið. Við gerum ágætis áhlaup í upphafi seinni hálfleiks og sýnum karakter en þetta Stjörnulið er það vel mannað í dag að þú getur ekki leyft þér svona fyrri hálfleik. Tapaðir boltar, töpuð dauðafæri og hugur fylgdi ekki máli. Við þurfum að laga þetta.“

„Við erum staðir, langt frá markinu sóknarlega. Hikandi í aðgerðum og það sést á færanýtingu og sendingarmistökum. Það mætir enginn til leiks í dag og hugsar með sér að þetta verði létt. Ég held það sé ekki nokkur maður og ekkert vanmat. Við erum eitthvað vitlaust stilltir og við þjálfaranir þurfum að skoða það með leikmönnum og mæta til leiks í næsta leik af krafti. Öll mistök sem við erum að gera i þessum leik og hvernig við erum að gera þau votta fyrir því að við séum ekki 100% rétt stilltir inn á það sem við erum að gera“ sagði Kristinn aðspurður hvað það hafi verið sem fór úrskeiðis hjá hans mönnum í kvöld

Markvarslan var ekki góðu hjá Eyjamönnum í kvöld á meðan Ólafur í marki Stjörnunnar átti virkilega góðan leik.

„Hver er sinnar lukku smiður. Stjarnan barðist vel fyrir sínu og hann var mjög góður í markinu. Stórt hrós á hann, það þarf að hafa fyrir því að verja boltana alveg sama þótt skotin séu vanstillt. Þeir voru klókir og ákveðnari en við og áttu fyllilega skilið að vinna okkur. Við verðum að fara heim og læra af þessu.“

Eyjamenn ætla ekki að láta þetta á sig fá og halda ótrauðir áfram.

„Það er ennþá nóvember og langt eftir af mótinu en við erum samt alveg drullu svekktir með þetta. Við þurfum að fara heim og skoða okkar gang og átta okkur á því úr hverju við erum gerðir. Við erum ekki þannig mannaðir að við getum leyft okkur að vera með nokkuð marga leikmenn úr takti og úr fókus. Við þurfum allir að vera í fókus og allir að vera saman í þessu, varnarlega og sóknarlega, til þess að draga inn sigra. Við erum ekki betra lið en þetta og þá þurfum við að vinna fyrir því“ sagði Kristinn í lokin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira