Viðskipti innlent

2,5 milljörðum varið í fjár­mögnun frum­kvöðla­sjóðs

Eiður Þór Árnason skrifar
Stofnun sjóðsins er sögð hluti af viðamiklum aðgerðum ráðherrans í þágu nýsköpunar.
Stofnun sjóðsins er sögð hluti af viðamiklum aðgerðum ráðherrans í þágu nýsköpunar. Vísir/Vilhelm
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýjan íslenskan hvatasjóð sem ber nafnið Kría frumkvöðlasjóður.

Um er að ræða hvatasjóð nýsköpunardrifins frumkvöðlastarfs sem mun fjárfesta í vísissjóðum (e. Venture Capital) og honum ætlað að auka aðgengi að fjármagni fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vinni að nýsköpun, segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Með Kríu frumkvöðlasjóði festum við í sessi og eflum fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og tryggjum þannig áframhaldandi vöxt þeirra með því að vera hvati vísifjárfestinga,“ er þar haft eftir nýsköpunarráðherra um stofnun sjóðsins.

Í fjármálaáætlun ríkissjóðs er gert ráð fyrir samtals 2,5 milljarði á næstu þremur árum til að fjármagna Kríu.

Þórdís kynnti einnig í dag fleiri aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu nýsköpunar. Þar á meðal verður farið þess á leit við Orkustofnun að hún opni fyrir aðgang að gögnum sínum í þágu nýsköpunar og stofnuð verður hugveita skipuð frumkvöðlum sem leggi meðal annars til ábendingar eða tillögur sem þarfnist úrlausnar á málasviði ráðherrans.

Einnig verður sú krafa gerð til stofnana sem heyra undir ráðuneyti hennar að hluta fjárveitinga verði varið í aðkeyptar nýsköpunarlausnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×