Lífið

Þorsteinn og Jóhannes á forsíðu morgundagsins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samherjafólk skálar fyrir namibískum gestum sínum í Íslandsferð í október árið 2012.
Samherjafólk skálar fyrir namibískum gestum sínum í Íslandsferð í október árið 2012. Wikileaks
Namibíski fjölmiðillinn The Namibian hefur boðað viðamikla umfjöllun um þarlendan sjávarútveg í tölublaði morgundagsins, þar sem Íslendingar koma við sögu eins og afhjúpað var í kvöld. Þar verður mútuþægni namibískra embættismanna í forgrunni, ekki síst dómsmálaráðherrans Sacky Shangala og sjávarútvegsráðherrans Benhard Esau en þeir ásamt athafnamanninum James Hatuiklipi eru sagðir hafa þegið um 150 milljónir namibíudala undir borðið.

The Namibian er einn þeirra miðla sem hefur unnið úr gögnunum sem Jóhannes Stefánsson lak til Wikileaks og þarlendra stjórnvalda, en þau síðarnefndu rannsaka nú myndina sem þar er teiknuð upp. Gögnin hafa fengið heitið Fishrot Files, sem er einmitt yfirskrift fréttar á vef The Namibian þar sem greint er frá forsíðuumfjöllun morgundagsins.

 

Á forsíðunni er slegið upp fyrirsögninni Kickback Kings, sem einfaldast væri að þýða sem Mútukóngarnir og er þar vísað til fyrrnefnda tríósins. Auk myndar úr einni af Íslandsheimsóknum Namibíumannanna, sem Samherji er sagður hafa greitt milljónir fyrir til að styrkja tengslin við namibíska ráðamenn, eru myndir af helstu persónum og leikendum í fiskveiðifléttunni.

Þeirra á meðal eru Shangala, Esau og Hatuiklipi, en einnig Victória de Barros Neto, sjávarútvegsráðherra Angóla, og athafnamaðurinn Ricardo Gustavo. Íslendingar eiga jafnframt sína fulltrúa á forsíðunni; þá Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, og uppljóstrarann Jóhannes, sem var stjórnandi Samherja í Namibíu.

Forsíðu The Namibian á morgun má sjá hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Djammferðir Samherja til Íslands styrktu tengslin við Namibíu

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji flaug namibískum áhrifamönnum hið minnsta þrisvar til Íslands, með milljónakostnaði, með það fyrir augum að þurfa ekki að keppa um fiskveiðikvóta í Namibíu á almennum markaði.

Wikileaks birtir 30 þúsund gögn um Samherja

Uppljóstrunarvettvangurinn Wikileaks birti í kvöld 30 þúsund skjöl sem það segist hafa fengið frá Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi stjórnanda Samherja í Namibíu.

Spyr hvað þjóðin geri nú

Sighvati Björgvinssyni var brugðið að sjá hvernig Samherji hefur umgengist namibískt kvótakerfi, kerfi sem Íslendingar hafi átt átt stóran þátt í að móta og koma á laggirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×