Viðskipti innlent

Ætlar að krefja Reykjavíkurborg um milljónir vegna framkvæmda á Hverfisgötu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásmundur Helgason, einn eigenda Gráa kattarins.
Ásmundur Helgason, einn eigenda Gráa kattarins. Vísir/Baldur

Veitingahúseigendur ætla að krefja Reykjavíkurborg um milljónir í skaðabætur vegna framkvæmda á Hverfisgötu. Framkvæmdirnar hafa tafist um marga mánuði. Borgin lofar bót og betrun en veitingahúseigandinn segir kerfið gera það að verkum að svo verði ekki.



Ásmundur Helgason er einn af eigendum veitingastaðarins Gráa Kattarins við Hverfisgötu. Hann mætti í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun til að ræða þessar framkvæmdir við Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar.



Ásmundur sagði alla græða á þessum framkvæmdum nema rekstraraðila við götuna. Borgin fái fína götu, verktakinn og undirverktakinn fái greitt en eftir standa veitinga- og verslunareigendur með tapið.



„Það sem hefur gerst undanfarna sex til sjö mánuði er búið að kosta mig allt upp í 40 prósent minni veltu á milli mánaða ef ég ber september saman við september í fyrra, október saman við október í fyrra. Það er 40 prósent minni velta hjá mér, og það skýrist að sjálfsögðu af því að það komst enginn að staðnum,“ sagði Ásmundur.

Ásmundur hefur margoft gagnrýnt tilkynningar borgarinnar til rekstraraðila um fyrirhugaða framkvæmdir. Bréf borgarinnar um framkvæmdirnar barst daginn eftir að framkvæmdir hófust í maí. Ásmundur segir engar líkur á breytingum. Borgin samþykkir fjárhagsáætlun í desember sem þýðir að framkvæmdir næsta sumar verða ekki boðnar út fyrr en um mánaðmót mars/apríl.



„Til þess að færast frá þessu þá verðið þið að samþykkja fjárhagsáætlun bara um mitt ár, ég skil ekki þetta vinnulag,“ sagði Ásmundur.



Hann ætlar að setja fram milljóna bótakröfu á borgina.



„Ég ætla bara að gera bótakröfu, það kemur bara bréf til borgarinnar eftir svona viku, hálfan mánuð, þar sem ég fer fram á tíu milljónir, eða einhverja x tölu í bætur.“



Pawel sagðist hafa mikla samúð með þeim rekstraraðilum sem verða fyrir tjóni. Hann viðurkenndi að ferlar borgarinnar væru ekki nægjanlega góðir þegar kæmi að svo umfangsmiklum framkvæmdum. Vonir standi til að bæta þetta, sér í lagi vegna framkvæmda sem eru fyrirhugaðar á neðri hluta Laugavegar og á Hlemmi.



Viðtalið við Ásmund og Pawel hér að neðan.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×