Viðskipti innlent

Reksturinn á Íslandi gengur sinn vanagang

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino´s á Íslandi.
Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino´s á Íslandi.

Rekstur Domino's á Íslandi mun áfram ganga sinn vanagang þrátt fyrir fyrirhugaða sölu Domino's Pizza Group, eiganda Domino's á Íslandi, á rekstrinum. Þetta kemur fram í svörum framkvæmdastjóra Domino‘s á Íslandi og upplýsingafulltrúa Domino's Pizza Group við fyrirspurnum fréttastofu.

Sjá einnig: Eigendur Domino's hyggjast yfirgefa Ísland

Greint var frá því í dag að Domino's Pizza Group hefði í hyggju að selja rekstur sinn á erlendum mörkuðum, m.a. á Íslandi. Félagið rekur veitingastaði undir vörumerkjum Domino's á Bretlandi og Írlandi og í Sviss, Liechtenstein, Noregi og Svíþjóð, auk Íslands. Reksturinn í Noregi hefur verið sérlega þungur síðustu misseri og þá seldi félagið alla veitingastaði sína í Danmörku fyrr á þessu ári.

Nina Arnott upplýsingafulltrúi Domino's Pizza Group segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að salan sé á frumstigi. Enn sé of snemmt að segja til um það hvenær nýir eigendur taki við vörumerki og veitingastöðum Domino's á umræddum mörkuðum. Salan muni ekki hafa áhrif á daglegan rekstur veitingastaðanna, allt gangi áfram sinn vanagang. Ekki fékkst svar við því hvort viðræður væru hafnar við vænlega kaupendur. 

Frá Domino's í Hafnarfirði. Vísir/vilhelm

Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino's á Íslandi, tekur í sama streng. Hann segir í samtali við Vísi að engar breytingar séu fyrirsjáanlegar á rekstri veitingastaðanna. Þá gangi reksturinn enn fremur vel.

Í árshlutauppgjöri Domino's Pizza Group var minnst á að einum veitingastað félagsins á Íslandi hefði verið lokað á þriðja ársfjórðungi. Birgir Örn segir að veitingastað Domino's á Höfðabakka hafi vissulega verið lokað í ágúst síðastliðnum en það eigi sér einfaldar skýringar. Nýir eigendur húsnæðisins hafi viljað notað það sjálfir. Leit stendur nú yfir að nýju húsnæði undir Domino's í hverfinu.

Domino's Pizza Group keypti 51 prósent í Pizza-Pizza, sérleyfishafa Domino‘s á Íslandi, árið 2016. Í árslok 2017 keypti félagið 44,3 prósenta hlut til viðbótar og átti þá 95,3 prósent hlut í fyrirtækinu. Eftirstandandi hlutur, 4,7 prósent, var þá í eigu áðurnefnds Birgis Arnar og Steinars Braga Sigurðssona, lykilstjórnenda Domino's á Íslandi, en þeir seldu hlut sinn í ágúst síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Domino's á Íslandi að fullu í hendur Bretanna

Forsvarsmenn Domino's hér á landi hafa ákveðið að nýta sölurétt sinn á 4,7 prósent hluti í Pizza-Pizza, sem á og rekur Domino's hér á landi, til breska móðurfélagsins Domino's Pizza Group,Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.