Viðskipti innlent

Sala Domino's á Íslandi minnkaði um nærri 5 prósent

Hörður Ægisson skrifar
Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino´s á Íslandi.
Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino´s á Íslandi.
Sala Domino’s á Íslandi minnkaði um 4,6 prósent á samanburðargrundvelli (e. like-for-like) á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta kemur fram í uppgjöri breska móðurfélagsins, Domino’s Pizza Group, sem félagið birti í Kauphöllinni í Lundúnum í gær en þar segir að samdrátturinn skýrist af almennt verri markaðsaðstæðum.

Söluvöxturinn hafi hins vegar aukist um þrjú prósent borið saman við fjórða ársfjórðung 2018 en þar hafi hjálpað til að stöðum Domino’s á Íslandi hafi verið fjölgað um tvo á þeim fjórðungi.

Samtals rekur Domino’s 25 staði hér á landi og nam veltan á árinu 2018 samtals nærri sex milljörðum króna. Þá var hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) um 750 milljónir. Státar Domino’s á Íslandi af því að vera með hæstu meðaltalssölu á hvern pitsustað sé litið til allra markaða móðurfélagsins.

Domino’s Pizza Group bætti sem kunnugt er við hlut sinn í Pizza-Pizza í lok árs 2017 og á nú ríflega 95 prósenta hlut í félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×