Skoðun

Ríkislögreglustjórinn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ríkislögreglustjóri hefur, með orðum sínum og gjörðum, komið sér í þá stöðu að hann nýtur ekki lengur trausts í embætti. Það sýna samþykktir fagfélaga innan lögreglunnar. Haraldur Johannessen hefur gegnt stöðunni í rúma tvo áratugi og nú er svo komið að hann nýtur ekki lengur trausts. Það kallar á aðgerðir.

Lögreglan gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Til hennar verður að ríkja traust og þau sem þar starfa verða að treysta hvert öðru og því kerfi sem þau starfa innan. Það að ríkislögreglustjóri lýsi því yfir í viðtali að innan lögreglunnar ríki spilling á eitt og sér að kalla á að hann verði látinn standa fyrir máli sínu. Ef hann getur ekki sýnt fram á dæmi, máli sínu til stuðnings, er yfirlýsingin þess eðlis að honum er ekki sætt í starfi eftir hana.

Hvað hefur breyst?

Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp viðtal við Harald í Fréttablaðinu frá 2016. Þar segir hann:

„Ég er búinn að vera ríkislögreglustjóri í átján ár. Á ferlinum hef ég ekki upplifað mörg spillingarmál. Það eru örfá mál þar sem lögreglumenn hafa misst tök á sjálfum sér. Þau mál hafa yfirleitt komið upp vegna innra eftirlits. Það eru engir lögreglustjórar sem líða það að spilling líðist innan síns embættis.“

Hvað hefur breyst á þessum þremur árum að nú telji Haraldur að spilling ríki innan lögreglunnar? Því getur hann einn svarað, enda ber hann sjálfur ábyrgð á eftirliti með innri málum lögreglunnar.

Haraldur virðist ekki gera sér ljósa þá ábyrgð sem á honum hvílir sem ríkislögreglustjóra. Staðan virðist öllum öðrum að kenna, ekki honum. Ef ríkislögreglustjóri tæki sína ábyrgð alvarlega mundi hann stíga til hliðar á meðan stjórnsýsluúttekt fer fram. Skapa frið, það hlýtur að vera hlutverk hvers sem gegnir embættinu. Ef hann er ekki fær um að taka þá ákvörðun sjálfur á dómsmálaráðherra að taka hana fyrir hann.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×