Viðskipti innlent

Blessun lögð yfir kaup Haga á Reykjavíkur Apóteki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Samkeppnieftirlitið gerir engar athugasemdir við kaup Haga á Reykjavíkur Apóteki. Þetta kemur fram í ákvörðun eftirlitsins sem tók samrunann til skoðunar.

Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til íhlutunar af hálfu eftirlitsins. Meginstarfsemi Reykjavíkur Apóteks felst í rekstri samnefndrar lyfjaverslunar að Seljavegi í Vesturbæ Reykjavíkur.

„Ljóst er að meginstarfsemi samrunaaðila fer ekki fram á sama markaði enda störfuðu Hagar ekki á lyfsölumarkaði fyrir samrunann. Þá liggur fyrir að hlutdeild og markaðsstyrkur Reykjavíkur Apóteks er takmarkaður í samanburði við stærri aðila á lyfjamarkaði, enda rekur Reykjavíkur Apótek aðeins eina lyfjaverslun. Hlutdeild apóteksins í sölu á þeim vörum þar sem starfsemi fyrirtækjanna skarast einkum, þ.e. sala á snyrti- og hreinlætisvörum, er auk þess hverfandi. Þá voru ekki til staðar önnur atriði sem réttlætt gátu íhlutun vegna samrunans,“ segir í tilkynningunni.

Fram kom í viðtali við Finn Árnason, forstjóra Haga fyrr á árinu, í Markaðnum að stjórnendur Haga hefðu leitað leiða til að styrkja grunnstoðir félagsins, en á sama tíma að efla og auka umsvif fyrirtækisins. Meðal skrefa sem hefðu verið stigin var sameining við hinn rótgróna eldsneytissala Olís. Við það jókst veltan um 40 prósent.

Sóknin kom í kjölfar tímabils sem varið var í að „þétta reksturinn“ í takt við breytt rekstrarumhverfi svo gripið sé til orðalags Finns Árnasonar forstjóra. Samstæðan lokaði um 25 þúsund verslunarfermetrum, þar á meðal fataverslunum og hluta af verslunarrými Hagkaups, á síðustu fimm árum.

Annað skref sem var stigið var að kaupa Lyfju, en Samkeppniseftirlitið meinaði Högum að kaupa keðjuna sumarið 2017. Kaup Haga á 90 prósenta hlut í Reykjavíkur Apóteki, sem í samanburði við Lyfju og Haga er lítill rekstur, var næsta skref. Nú geta kaupin gengið í gegn.

Finnur var spurður að því í vor hver hugmyndin væri að kaupunum og hvort stefnt yrði að því að nota vörumerkið áfram.

„Við horfum til þess að byggja á grunni þessa fyrirtækis og opna nýjar verslanir. Það eru ákveðnar staðsetningar til skoðunar. Um leið og kaupin verða samþykkt liggur fyrir hvar fyrsta apótekið verður opnað. Það er ekki horft til þess að reka apótek á hverju horni heldur að byggja upp fyrirtækið af skynsemi og yfirvegun,“ sagði Finnur.

„Við teljum vörumerkið Reykjavíkur Apótek mjög sterkt og vel til þess fallið að byggja á.“


Tengdar fréttir

Erfið staða á meðan beðið er eftir SKE

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að vinnan með Samkeppniseftirlitinu vegna sameiningar við Olís hafi tekið fimmtán mánuði. Hagar vinna að skipulagi á reit í Breiðholti með allt að 400 íbúðum. Önnur hver flík er keypt erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×