Handbolti

Gunnar: Mikil gryfja í Tékklandi og það verður erfitt

Anton Ingi Leifsson skrifar

Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar hefja á morgun leik í Evrópukeppninni í handbolta. FH spilar við Visé í Belgíu en Haukar eiga fyrri leikinn við tékneska liðið Talent Plzen á heimavelli.

Deildarmeistara Hauka bíður spennandi verkefni í 1. umferð keppninnar er sterkt lið frá Tékklandi kemur hér í heimsókn. Talent Plzen varð meistari í Tékklandi á síðustu leiktíð.

Fyrri leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni í dag og verður flautað til leiks klukkan 18.00.

„Okkur bíður skemmtilegt verkefni og auðvitað viljum við komast eins langt í Evrópukeppninni og við getum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Arnar Björnsson.

En hversu sterkir eru tékknesku meistararnir?

„Það er erfitt að bera saman lið á milli landa en það sem ég hef séð á undirbúningstímabilinu og frá því í fyrra þá er þetta sterkt lið.“

„Ég á von á hörkuleik en engu að síður þá tel ég okkur eiga góða möguleika að komast áfram. Við þurfum að eiga góðan leik á morgun og ná góðu forskoti fyrir leikinn á morgun.“

Gunnar segir að í Evrópukeppninni, þar sem er leikið bæði heima og heiman, þurfi að huga að mörgu.

„Þú vilt hafa forskot fyrir síðari leikinn. Þeir eru með mikla gryfju þarna í Tékklandi og það verður erfitt. Við þurfum að eiga góðan leik á morgun.“

„Í fyrsta lagi þurfum við að vinna leikinn og auðvitað að fara sem flest mörk í veganesti til Tékklands.“

Hann segir að leikmannahópurinn sé í góðu standi og er spenntur fyrir leiknum.

„Það eru allir heilir og erum búnir að miða okkar undirbúningi að vera klárir í þennan leik. Það er alltaf gaman að taka þátt í þessari Evrópukeppni svo strákarnir eru klárir.“

„Þetta er fyrsti alvöru handaboltaleikurinn á tímabilinu svo ég vona að sem flestir mæti,“ sagði Gunnar að endingu.

Innslagið má sjá í heild sinni hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.