Handbolti

Gunnar: Mikil gryfja í Tékklandi og það verður erfitt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar hefja á morgun leik í Evrópukeppninni í handbolta. FH spilar við Visé í Belgíu en Haukar eiga fyrri leikinn við tékneska liðið Talent Plzen á heimavelli.

Deildarmeistara Hauka bíður spennandi verkefni í 1. umferð keppninnar er sterkt lið frá Tékklandi kemur hér í heimsókn. Talent Plzen varð meistari í Tékklandi á síðustu leiktíð.

Fyrri leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni í dag og verður flautað til leiks klukkan 18.00.

„Okkur bíður skemmtilegt verkefni og auðvitað viljum við komast eins langt í Evrópukeppninni og við getum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Arnar Björnsson.

En hversu sterkir eru tékknesku meistararnir?

„Það er erfitt að bera saman lið á milli landa en það sem ég hef séð á undirbúningstímabilinu og frá því í fyrra þá er þetta sterkt lið.“

„Ég á von á hörkuleik en engu að síður þá tel ég okkur eiga góða möguleika að komast áfram. Við þurfum að eiga góðan leik á morgun og ná góðu forskoti fyrir leikinn á morgun.“







Gunnar segir að í Evrópukeppninni, þar sem er leikið bæði heima og heiman, þurfi að huga að mörgu.

„Þú vilt hafa forskot fyrir síðari leikinn. Þeir eru með mikla gryfju þarna í Tékklandi og það verður erfitt. Við þurfum að eiga góðan leik á morgun.“

„Í fyrsta lagi þurfum við að vinna leikinn og auðvitað að fara sem flest mörk í veganesti til Tékklands.“

Hann segir að leikmannahópurinn sé í góðu standi og er spenntur fyrir leiknum.

„Það eru allir heilir og erum búnir að miða okkar undirbúningi að vera klárir í þennan leik. Það er alltaf gaman að taka þátt í þessari Evrópukeppni svo strákarnir eru klárir.“

„Þetta er fyrsti alvöru handaboltaleikurinn á tímabilinu svo ég vona að sem flestir mæti,“ sagði Gunnar að endingu.

Innslagið má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×