Viðskipti innlent

Ás­geir Jóns­son tekinn við sem seðla­banka­stjóri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásgeir Jónsson í Seðlabankanum í morgun.
Ásgeir Jónsson í Seðlabankanum í morgun. vísir/beb
Ásgeir Jónsson tók í morgun formlega við störfum sem seðlabankastjóri. Hann tekur við starfinu af Má Guðmundssyni sem gegnt hefur stöðunni frá árinu 2009.

Ásgeir var áður dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands og var einn fjögurra umsækjenda um embætti seðlabankastjóra sem metnir voru mjög vel hæfir í stöðuna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skipar í embættið en tilkynnt var um ráðningu Ásgeirs fyrir tæpum mánuði síðan.

Þá kom fram að það væri mat ráðherra að Ásgeir væri hæfastur umsækjenda til að gegna embætti seðlabankastjóra að teknu tilliti til frammistöðu umsækjenda í viðtölum og efni umsagna sem leitast var eftir.

Í rökstuðningi ráðherrans sagði meðal annars að sérþekking Ásgeirs á peningastefnu muni nýtast vel í starfi seðlabankastjóra.

„Í því sambandi leit ráðherra meðal annars til efnis doktorsritgerðar Ásgeirs á þessu sviði, rannsókna hans og kennslu á sviðinu, ritun fræðirita og reynslu hans af ráðgjöf við stjórnvöld um umgjörð peningastefnu. Þá var það jafnframt mat ráðherra að stjórnunarhæfni Ásgeirs myndi nýtast betur en samsvarandi hæfni annarra umsækjenda í embætti seðlabankastjóra. Í því sambandi leit ráðherra meðal annars til þess sem fram kom í umsögnum um Ásgeir og frammistöðu hans í viðtali,“ sagði í rökstuðningnum.

Ásgeir lauk doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið.

Doktorsritgerð Ásgeirs fjallaði um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Ásgeir hefur starfað við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent.

Ásgeir var deildarforseti við hagfræðideild frá árinu 2015 og samhliða því einnig verið efnahagsráðgjafi Virðingar og Gamma.

Hann hefur gegnt öðrum ábyrgðarstörfum, meðal annars sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnu og verið forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004 til 2011.

Á árunum 2000 til 2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands.


Tengdar fréttir

Nýr seðlabankastjóri „skarpgreindur, víðsýnn og afkastamikill“

Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands hefur, eins og greint hefur verið frá, verið skipaður Seðlabankastjóri og mun taka við af Má Guðmundssyni. Ásgeir var einn fjögurra sem metnir voru mjög vel hæfir til starfsins og þótti bera af í viðtölum ásamt Gylfa Magnússyni, dósent við HÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×