Skoðun

Litli maðurinn

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Ég hljóp svo hratt að gangandi maður tók fram úr mér. Maður á líklega ekki að segja frá þessu en mér til málsbóta var ég að fara upp brekku, sem er minn helsti veikleiki. En það er allt í lagi. Ég þarf engin númer á palli eða medalíur. Minn hvati er að komast í tæri við náttúruna og fylla á súrefnistankinn. Og fá stinnari rass.

Hreyfing er vanmetin hjá helmingi landsmanna sem fær ekki næga hreyfingu skv. Embætti landlæknis. Eftir góða hreyfingu eykst grunnefnaskiptahraði okkar í allt að tvo sólarhringa. Og ef hægt væri að setja allt það sem hreyfing gerir fyrir okkur í pillu myndi enginn hika við að taka hana: Hjartað styrkist, blóðþrýstingur og kólesteról lækka, lungun taka betur upp súrefni, líkur á krabbameini, sykursýki og heilablóðfalli minnka. Minnið batnar, þú sefur betur og ert glaðari. Þetta er brot af hinum jákvæðu hliðarverkunum hreyfingar. Þeir sem hreyfa sig reglulega – en ofgera sér ekki – geta sem sagt átt von á því að lifa lengra og betra lífi.

Við áreynslu nýtir líkaminn allt að tuttugufalt meira súrefni og það er kaldhæðni að á sama tíma og Reykjavíkurmaraþon, fjölmennasti íþróttaviðburður landsins, á sér stað brenna súrefnislindir okkar. Fleiri en 74 þúsund skógareldar hafa geisað í Amason-regnskógum Brasilíu það sem af er þessu ári en fimmtungur súrefnis kemur þaðan.

Maður upplifir sig veikmátta í þeirri vá sem við erum þarna minnt á. En maður er aldrei svo veikmátta að geta ekki haft áhrif. Við getum styrkt góðgerðarfélög eins og Rainforest Alliance til að stöðva eldana og í maraþoninu var mörgum góðum málefnum lagt lið með framlögum. Þar sannaðist að við litlu mennirnir getum haft áhrif – með eða án medalíu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×