Viðskipti innlent

Meta Arion 15 prósentum yfir markaðsgengi 

Hörður Ægisson skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion. Arion
Fjárfestar eru ekki að taka að fullu tillit til líklegrar sölu á Valitor ásamt frekari arðgreiðslum og endurkaupum á eigin bréfum í verðlagningu sinni á Arion banka. Þetta kemur fram í nýju verðmati Hagfræðideildar Landsbankans sem Markaðurinn hefur undir höndum og var sent á viðskiptavini bankans í gær.

Greinendur Landsbankans meta þannig gengi hlutabréfa í Arion banka á 86,3 krónur á hlut sem er tæplega 15 prósentum yfir markaðsgengi. Mæla þeir með kaupum á bréfum í bankanum.

Í verðmatinu segir að merkja hafi mátt jákvæða þróun í grunnrekstri bankans á síðustu ársfjórðungum sem gefi vonir um að hægt verði að bæta arðsemi þrátt fyrir aukin vanskil og virðisrýrnun útlána. Þá hafa greinendur trú á því að nýir stjórnendur Arion banka – Benedikt Gíslason og Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason hafa tekið við sem annars vegar bankastjóri og hins vegar aðstoðarbankastjóri – muni kynna skýrari og árangursríkari leið að hagkvæmari fjármagnsskipan og hagræðingar í rekstri bankans.

Samkvæmt verðmatinu er gert ráð fyrir því að Valitor, dótturfélag Arion banka, verði selt að fullu sem muni skila sér í verulegum arðgreiðslum til hluthafa. Valitor var sett í formlegt söluferli fyrr á árinu og áhugasamir fjárfestar skiluðu inn óskuldbindandi tilboðum í félagið um miðjan síðasta mánuð.

Greinendur Landsbankans, sem taka fram að þeir framkvæmi ekki sjálfstætt verðmat á Valitor, áætla að virði Valitor nemi um 150 prósentum af bókfærðu eigin fé þess í reikningum Arion banka en um mitt þetta ár stóð það í 13,2 milljörðum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×