Viðskipti innlent

Kaldalón skráð á markað á föstudaginn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Jónas Þór Þorvaldsson.
Jónas Þór Þorvaldsson. Aðsend

Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón verður skráð á First North markaðinn næstkomandi föstudag. Forsvarsmenn Kaldalóns hafa að undanförnu fundað með lífeyrissjóðum og markaðsaðilum til að kynna félagið.



Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaldalóns, var í ýtarlegu viðtali í Markaðinum um miðjan júlí. Þá var verið að ljúka um 400 milljóna króna hlutafjáraukningu frá bæði nýjum og núverandi hluthöfum til þess að hækka hlutaféð í 3,7 milljarða fyrir skráningu. Útilokaði hann ekki aðra hlutafjáraukningu á næstu misserum ef félagið myndi ráðast í ný og stór verkefni. „Það má reikna með því að Kaldalón muni vaxa umtalsvert eftir skráninguna,“ sagði Jónas Þór.



Kaldalón samdi nýlega við alþjóðlegt verktakafyrirtæki, Rizzani De Eccher, sem er 100 ára gamalt ítalskt fjölskyldufyrirtæki með yfir milljarð evra í árlega veltu og starfsemi í fleiri en 100 löndum. Samstarfið mun vera lykilþáttur í að ná markmiðum Kaldalóns um hagkvæma uppbyggingu.



Uppfærður hluthafalisti Kaldalóns sýnir að einkahlutafélagið RES, sem er í eigu hjónanna Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur og Sigurðar Bollasonar, er stærsti hluthafinn með 13,4 prósenta hlut. Gunnar Henrik B. Gunnarsson og Lovísa Ólafsdóttir eru næststærst með 12,6 prósenta hlut í gegnum Investar. Á meðal annarra hluthafa eru Ingibjörg Pálmadóttir, sem á Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þau eiga 8,2 prósenta hlut í gegnum 24 Development Holding. – þfh





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×