Viðskipti innlent

Novator og Lego leggja háar fjárhæðir í nýjan fjölspilunarleik

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Fréttablaðið/GVA
Novator, fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur ásamt danska leikfangaframleiðandanum Lego fjármagnað alþjóðlega tækni- og leikafyrirtækið Klang, sem var stofnað árið 2013 af Ívari Emilssyni, Oddi Snæ Magnússyni og Guðmundi Hallgrímssyni listamanni, sem jafnan er kallaður Mundi Vondi.

Fjallað er um málið á vefnum VentureBeat en upphæðin nemur rúmlega 22 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 2,7 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Klang þróar fjölspilunarleikinn Seed og bindur fyrirtækið vonir við að hann muni endurskilgreina fjölspilunarupplifun á netinu.

Birgir Ragnarsson, sem starfar fyrir Novator Partners, segir í samtali við VentureBeat að fyrirtækið hafi verið aðdáandi Klang-leikjaframleiðandans frá upphafi. Fyrirtækið sé leiðandi í tækni og þróun og þar sé að finna mikinn skilning á tölvuleikjaumhverfinu og fulla trú á tölvuleiknum Seed.

Verður Birgir formaður stjórnar Klang-fyrirtækisins en áður var hann stjórnarformaður CCP Games sem framleiða EVE Online.

Í tölvuleiknum Seed eiga spilarar að fá tækifæri á að stjórna fleiri en einum karakter í einu. Gerist leikurinn i fjarlægri framtíð þar sem spilarar hjálpast að við að endurbyggja samfélag manna og stofna sér nýtt heimili á stórri plánetu sem svipar til jarðarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×