Körfubolti

Jón Axel: Komum trylltir og spiluðum íslenska vörn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Axel Guðmundsson var frábær í dag
Jón Axel Guðmundsson var frábær í dag vísir/daníel
Jón Axel Guðmundsson átti stórleik fyrir íslenska landsliðið sem vann 96-68 stórsigur á Portúgal í forkeppni Eurobasket í Laugardalshöll í dag.

„Ég er glaður að við höfum náð að klára þetta svona stórt hér í dag fyrir framan geggjaða áhorfendur,“ sagði Jón Axel eftir leikinn, en Laugardalshöll var vel setin í dag, opinberar tölur frá KKÍ voru um 1700 manns.

Það var mikilvægt fyrir Ísland að ná í stóran sigur þar sem stigaskorið gæti haft áhrif þegar upp er staðið ef öll liðin enda jöfn að stigum.

„Það var mikilvægt, en að sjálfsögðu ætlum við að fara til Sviss til þess að vinna,“ sagði Jón. Ef Ísland vinnur Sviss á miðvikudag fer Ísland áfram og þá þarf ekki að fara í flókna stigaútreikninga.

Ísland spilaði mjög vel í dag, hvað fannst Jóni liðið gera best?

„Við komum trylltir, spiluðum íslenska vörn og vorum brjálaðir út um alla völl og það skilaði sér vel sóknarlega.“

Jón Axel var stigahæstur í dag með 22 stig og er þetta annar leikurinn í röð þar sem hann er stigahæstur í íslenska liðinu.

„Það er bara bónus, svo lengi sem við vinnum þá er ég glaður,“ sagði Jón Axel Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×