Erlent

Mynd af skælbrosandi Trump með munaðarleysingja vekur reiði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Forsetahjónin með hinn tveggja mánaða Paul Anchondo. Foreldrar hans létust bæði í skotárásinni.
Forsetahjónin með hinn tveggja mánaða Paul Anchondo. Foreldrar hans létust bæði í skotárásinni. Twitter/MelaniaTrump
Mikil reiði hefur gripið um sig á samfélagsmiðlum eftir að Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, birti mynd á Twitter-reikningi sínum í gær sem sýnir forsetahjónin stilla sér upp með ungbarni sem missti báða foreldra sína í skotárásinni í bandarísku borginni El Paso um helgina.

Foreldrar drengsins á myndinni hétu Andre og Jordan Anchondo. Þau voru á meðal þeirra 22 sem byssumaður skaut til bana í Walmart-verslun í El Paso á laugardagsmorgun. Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því að hjónin hefðu látist við að verja son sinn skotum úr byssu árásarmannsins.

Myndin er tekin við heimsókn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og áðurnefndrar forsetafrúr, Melaniu, á sjúkrahús í El Paso á miðvikudag, þar sem eftirlifendur skotárásarinnar liggja inni.

Í frétt breska dagblaðsins Guardian segir að Hvíta húsið hafi sérstaklega óskað eftir því að komið yrði með litla drenginn á sjúkrahúsið meðan á heimsókninni stæði. Föðurbróðir drengsins, sem stendur lengst til vinstri á myndinni, er sagður stuðningsmaður Trumps. Það hafi faðir drengins einnig verið í lifanda lífi.

Andstæðingar forsetans hneyksluðust margir á myndbirtingunni, einkum í ljósi þess að Hvíta húsið meinaði blaðamönnum aðgöngu að sjúkrahúsinu svo að heimsóknin yrði ekki aðeins „tækifæri til að stilla sér upp á myndum“.

Heimsókn Trumps til El Paso var mætt með mikill andstöðu íbúa í El Paso en margir halda því fram að Trump hafi með orðræðu sinni kynt undir hatri í garð innflytjenda, sem árásarmaðurinn vísaði til í stefnuyfirlýsingu sinni. El Paso stendur við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó og er mikil innflytjendaborg.

Ekkert þeirra átta fórnarlamba sem enn liggja á spítalanum vildi hitta forsetann þegar hann heimsótti spítalann. Þrjú þeirra voru of veikburða til þess og fimm höfnuðu boðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×