Viðskipti innlent

Forstjóri Alcoa Fjarðaáls lætur af störfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Magnús Þór Ásmundsson
Magnús Þór Ásmundsson
Magnús Þór Ásmundsson hefur óskað eftir að láta af störfum hjá Alcoa Fjarðaáli. Hann hefur starfað hjá Fjarðaáli frá árinu 2009, fyrst sem framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar, síðan sem forstjóri móðurfélagsins Alcoa á Íslandi frá 2012 og jafnframt sem forstjóri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði frá 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa mun Magnús hætta störfum þann 1. ágúst næstkomandi, á fimmtudag. Nánari skýringar á þvi hvers vegna hann segir skilið við starfið fást hins vegar ekki. Starfslokin séu að hans frumkvæði.

Í tilkynningu frá Alcoa er þess geti að Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri álframleiðslu, taki tímabundið við starfi forstjóra Fjarðaáls þangað til nýr forstjóri verður ráðinn. Þá verði Magnús Þór nýjum stjórnendum jafnframt innan handar næstu misseri.

Sjá einnig: Of slæmur í hnjánum fyrir Anfield

Haft er eftir Magnús í tilkynningunni að honum hafi þótt tíminn hjá Alcoa gefandi. „Ég er þakklátur því góða starfsfólki sem ég hef unnið með og er stoltur af árangri okkar hjá Fjarðaáli í umhverfis-, öryggis- og jafnréttismálum,“ segir Magnús Þór.

Kai-Rune Heggland, yfirmaður álframleiðslusviðs Alcoa í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Ástralíu, þakkar Magnúsi í sömu tilkynningu fyrir vel unnin störf. „Magnús Þór hefur starfað fyrir Alcoa í tíu ár og verið einn af lykilmönnum í uppbyggingu Fjarðaáls frá upphafsárum þess og við þökkum Magnúsi fyrir hans góða framlag til fyrirtækisins,“ segir Heggland.

Magnús Þór er rafmagnsverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og M.Sc. frá Danmarks Tekniske Universitet.

 

 


Tengdar fréttir

Svipmynd Markaðarins: Of slæmur í hnjánum fyrir Anfield

Magnús Þór Ásmundsson hefur tekið við starfi forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Hann lærði rafmagnsverkfræði við DTU og vann hjá Marel í 19 ár. Magnús stefnir að því að gera álverið í Reyðarfirði að hagkvæmasta álveri í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×