Lífið

Sálrænt áfall eftir martraðarkennda heimafæðingu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lake Bell leitaði til sálfræðings vegna sálræns áfalls eftir afar erfiða heimafæðingu.
Lake Bell leitaði til sálfræðings vegna sálræns áfalls eftir afar erfiða heimafæðingu. Getty/Sarah Morris

Bandaríska leikkonan Lake Bell segist hafa þurft að vinna sig í gegnum samviskubit, eftirsjá og heilmikið sálrænt áfall eftir að litlu mátti muna að sonur hennar léti lífið í erfiðri heimafæðingu árið 2017.

Bell opnaði sig um skelfilega heimafæðingu sonar síns í viðtali í hlaðvarpsþætti leikarans Dax Shepard, Armchair Expert. Bell er þekkt fyrir frammistöðu sína í þáttunum New Girl, Bless this Mess og Boston Legal. Þá kunna margir að hafa séð hana í rómantísku gamanmyndunum It‘s Complicated (2009) og Home Again (2017)

„Við [Bell og eiginmaður hennar Scott Campbell] höfum tvisvar haft heimafæðingu. Sú fyrri var fæðing dóttur okkar Nova í Brooklyn. Það var mjög valdeflandi. Heimafæðingin einkenndist af ótrúlegri frumstæðri tengingu“.

Þegar Nova fæddist var naflastrengurinn vafinn um hálsinn á henni.

„Þetta var mjög ógnvekjandi. Hún var sett á bringuna mína og hún andaði ekki. Ljósmóðirin blés þrisvar í hana sem varð henni til lífs. Eiginmaður minn var viðstaddur og hún lifnaði við og við sáum það,“ segir Bell sem segir þetta hafa verið mjög valdeflandi upplifun og viljað gera þetta aftur.

Síðari heimafæðingin fór aftur á móti ekki eins vel og sú fyrri. 

Nær dauða en lífi þegar naflastrengurinn vafðist um hálsinn

„Það sama kom fyrir. Ég var heima og naflastrengurinn hafði vafist utan um hálsinn á honum. Hann lá á bringunni á mér en hann virtist ekki ætla að ná andanum. Þegar þarna var komið við sögu erum við einfaldlega að tala um líf og dauða. Barnið þitt er þarna og allir í herberginu eru að reyna að endurlífga það en án árangurs. Sjúkraflutningamennirnir eru á leiðinni og hann liggur enn þarna. Þessi manneskja sem þú þekkir ekki.“

Sjúkraflutningamennirnir æða inn og ná á son þeirra hjóna „og ég varð eftir, nakin, að loknum sjö klukkustundum af hríðum.“ Ljósmóðirin sagði henni að hún yrði að fæða fylgjuna.

„Ég leit á símann minn á meðan þær voru að sauma mig og ég fékk stutt myndskeið frá Scott: Litli Ozzy að anda með súrefnisgrímu og það leið yfir mig. Ég hugsaði með mér: „Hann er á lífi“ og svo datt ég út,“ rifjar Bell upp.

Læknar gerðu í fyrstu ekki ráð fyrir að Ozgood Campbell myndi geta talað. Getty/Sarah Morris

Syninum fór hratt fram eftir heimkomu

Sonur þeirra var á vökudeildinni í tæplega tvær vikur því hann var án súrefnis í of margar mínútur. Í fyrstu var talið að hann yrði lamaður af völdum heilaskemmda og að mögulega myndi hann hvorki getað talað né gengið.

Syni hjónanna fór aftur á móti hratt fram eftir að þau fengu hann heim.
„Ég á þennan ótrúlega litla dreng sem rúllaði sér á hliðina tveggja mánaða og tók fyrstu skrefin níu mánaða. Það var næstum eins og hann segði: Mamma, þetta er allt í lagi. Ég er að ná þessum áföngum snemma til að þú getir slakað á,“ sagði Bell í gríni.
 

Þunglyndislyf og sálfræðimeðferð

Bell segir að hún hafi fundið fyrir yfirþyrmandi sektarkennd í langan tíma.

„Ég tók alla sökina á mig því ég var sú sem krafðist þess að hafa heimafæðingu. Ég er búin að vera fást við þessar erfiðu tilfinningar síðan. Maður getur kennt ljósmóðurinni um, maður getur kennt sjálfum sér um en þegar allt kemur til alls er það lokaútkoman sem skiptir máli,“ segir Bell og bætir við:

„Ég hef farið í sálfræðimeðferð og var á lyfjum í eitt og hálft ár. Ég náði að venja mig af þunglyndislyfjunum en ég var á þeim til að koma reglu á sálarlífið.“

Bell segist aldrei fyrr hafa tjáð sig um seinni heimafæðinguna en fann að nú væri rétti tíminn til að opna sig. „Þetta er í raun sagan hans Ozzy og ég er svo stolt af honum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.