Ísland var meðal þjóða sem kynnti landarýni um innleiðingu markmiðanna. Tæp fjögur ár eru liðin frá því þjóðarleiðtogar sammæltust um sautján heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Ljóst er eftir fundinn í New York að þjóðir heims þurfa að herða róðurinn til þess að uppfylla heimsmarkmiðin sem eiga að vera í höfn árið 2030.
Heimsmarkmiðin sautján eru samþætt og órjúfanleg og fela í sér fimm meginþemu: mannkyn, jörð, hagsæld, frið og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum sem kom út á ráðherrafundinum segir að þrátt fyrir árangur á ákveðnum sviðum, meðal annars hvað varðar að draga úr fátækt og bæta heilsu, þurfi þjóðir heims að bregðast við með skilvirkari og hraðari hætti en hingað til.
Í skýrslunni er bent á loftslagsbreytingar og ójöfnuð sem tvö brýnustu úrlausnarefnin. Þar segir að hamfarir vegna loftslagsbreytinga hafi gífurleg áhrif í lágtekjuríkjum og auki fátækt, hungur og sjúkdóma þeirra fátækustu og viðkvæmustu í heiminum.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.