Handbolti

Góð byrjun ekki nóg gegn Króötum og strákarnir misstu af undanúrslitasætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Viðarsson, númer 11, var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk.
Arnór Viðarsson, númer 11, var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk. Mynd/HSÍ
Íslenska sautján ára karlalandsliðið í handbolta tapaði með þremur mörkum á móti Króatíu, 21-24, í síðasta leik liðsins i riðlakeppni á Ólympíuleikum Evrópuæskunnar í Baku.

Íslensku strákarnir þurftu stig gegn Króötum til að komast upp úr riðlinum en urðu að sætta sig við tap.

Arnór Viðarsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk en nafni hans Arnór Ísak Haddsson skoraði fimm mörk. Enginn annar skoraði meira en tvö mörk.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og komst bæði í 5-3 og 9-6 en liðið var síðan 11-9 yfir þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Króatar jöfnuðu í 11-11 fyrir hálfleik.

Íslenska liðið var 13-12 yfir í upphafi seinni hálfleiks en þá komu þrjú króatísk mörk í röð og Króatar náðu síðan mest fimm marka forystu, 16-21, þegar sjö mínútur voru eftir. Sigur Króata var því nokkuð öruggur.

Íslensku strákarnir sitja því eftir með sárt ennið þrátt fyrir að hafa unnið stórkostlegan sigur á Frökkum í fyrsta leik. Jafntefli og tap í gær var ekki nóg til að koma íslenska liðinu í undanúrslitin.

Frakkar unnu tvo síðustu leiki sína og fara áfram og Króatarnir fara síðan áfram á betri úrslitum í innbyrðis leik sínum á móti Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×