Körfubolti

Hlynur: Ætlaði ekki að vera sá sem myndi hætta og koma aftur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hlynur Bæringsson landsliðsmaður í körfubolta sem er hættur við að hætta með íslenska landsliðinu, gat ekki sagt nei þegar leitað var til hans um að halda áfram.

Hlynur sagðist vera hættur eftir leik gegn Portúgal í febrúarmánuði en vegna forfalla sló til er Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins, sló á þráðinn til hans.

Ísland mætir Sviss og Portúgal, heima og heiman, en leikirnir fara fram í byrjun ágúst mánaðar. Leikirnir eru liður í undankeppni EM 2021 en fyrsti leikurinn er gegn Portúgal ytra þann 7. ágúst

„Mér hefur ekki fundist þetta töff þegar menn hætta og koma til baka. Ég ætlaði ekki að vera sá maður en svona er þetta,“ sagði Hlynur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þegar þeir voru búnir að tala við mig fannst mér þetta spennandi. Þetta er dálítið spes að sjálfsögðu, ég viðurkenni það.“

Hlynur segir að hann elski að spila körfubolta og finnist það fínt að gleyma sér á æfingunum í Laugardalshöll.

„Ég kem með litla ábyrgð og finnst gott að koma hingað og gleyma mér í því að spila körfubolta. Ég er ekkert með í maganum yfir þessu,“ sagði hinin reynslumikli miðherji.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×