Skoðun

Rafmagnsskortur og orkustefna

Guðmundur Ingi Ásmundsson skrifar

Öruggt framboð af rafmagni er nauðsynlegt fyrir nútímasamfélög og við verðum sífellt háðari því. Í nýrri skýrslu um afl- og orkujöfnuð fyrir árin 2019-2023 sem við hjá Landsneti gáfum út kemur fram að líkur á rafmagnsskorti á Íslandi á næstu árum eru að aukast talsvert.

Í skýrslunni bendum við á þá staðreynd að raforkunotkun hefur aukist hraðar en uppbygging virkjana sem leiðir til þess að líkur á skorti fara vaxandi. Í samræmi við hlutverk okkar, erum við ekki að taka afstöðu til einstakra notenda heldur erum við að vekja athygli á stöðunni svo hægt sé að bregðast við í tíma og koma í veg fyrir mögulegar skerðingar sem yrðu án aðgerða.

Raforkuspá er í höndum Orkustofnunar sem gefur út nýja orkuspá árlega. Á undanförnum árum hefur notkunin þó verið umfram spár stofnunarinnar þar sem spáin tekur ekki tillit til aukningar hjá stærri notendum. Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi með aukinni fólksfjölgun, orkuskiptum og auknum umsvifum í atvinnulífinu.

Í umræðunni hefur verið áberandi sú staðreynd að óljóst er hver ber ábyrgð á því að nægjanlegt afl sé í landinu. Við höfum bent á að stærri notendur hafi burði til að semja um sína hagsmuni og minni fyrirtæki og almenningur muni standa eftir. Það þarf líka að hafa í huga að ákvarðanir í orkumálum og uppbyggingu orkumannvirkja hafa áhrif til langs tíma. Ákvörðun í dag í þessum efnum er iðulega viðbragð við stöðu sem kann að koma upp eftir einhver ár.

Á vegum stjórnvalda er nefnd að störfum sem vinnur að stefnumörkun í orkumálum. Eitt mikilvægasta verkefni hennar er að marka stefnuna um nýtingu á okkar verðmætu hreinu orku og styrkja forsendur orkuspár. Niðurstaða nefndarinnar verður leiðarljós starfsfólks fyrirtækjanna sem hafa það hlutverk að útfæra og innleiða stefnu nefndarinnar í sem mestri sátt við samfélagið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.